Akureyri jafnaði einvígið gegn FH

Heimir Örn Árnason fyrirliði Akureyrar brýst í gegnum vörn FH.
Heimir Örn Árnason fyrirliði Akureyrar brýst í gegnum vörn FH.

Akureyringar unnu FH á heimavelli sínum fyrir norðan, 25-18, er liðin áttust við í öðrum leik liðanna í undanúrslitum N1-deildar karla í handknattleik. Staðan í einvíginu er því 1-1 og liðin mætast næst í Kaplakrika á sunnudaginn kemur, en vinna þarf þrjá leiki til að komast í úrslit. FH byrjaði leikinn af krafti í Höllinni en Akureyringar virtust hreinlega ekki mættir til leiks. FH komst í 3-0 en það tók Akureyringa heilar níu mínútur að komast á blað.

Líkt og í fyrsta leiknum í Kaplakrika voru norðanmenn í vandræðum í sóknarleiknum, vörnin hélt illa og FH hafði mun minna fyrir sínum mörkum. Daníel Freyr Andrésson í marki FH tók upp þráðinn frá því í leiknum í Krikanum og varði vel og skyttan Ólafur Gústafsson lét nokkra sleggjur vaða á mark heimamanna sem Sveinbjörn Pétursson í marki Akureyrar réði illa við. FH náði fimm marka forystu, 6-1, en Akureyri komst meira inn í leikinn þegar á leið og frábær endasprettur liðsins í seinni hálfleiks skilaði liðinu tveggja marka forskoti í hálfleik, 11-9, eitthvað sem lá ekki í loftinu framan af fyrri hálfleik. Vörn norðanmanna komst í gang og í takt við hana steig Sveinbjörn Pétursson upp í marki Akureyrar og varði mikilvæg skot. Viðsnúningurinn algjör í Höllinni.

Akureyri hélt áfram þar sem frá var horfið í upphafi seinni hálfleiks. Sveinbjörn Pétursson setti í lás í markinu og heimamenn komust sex mörkum yfir 18-12, þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. Forysta Akureyringa var orðin átta mörk þegar seinni hálfleikurinn var rúmlega hálfnaður, 21-13, og FH tók leikhlé, en liðið virtist algjörlega ráðþrota. Leikhléið virtist ekki skila tilætluðum árangri en norðanmenn juku við forystuna sem var orðin tíu mörk, 23-13, þegar tæplega tíu mínútur lifðu leiks. Þennan mun náðu FH-ingar aldrei að vinna upp og norðamenn innbyrtu að lokum öruggan sjö marka sigur, 25-18, og það er því ljóst að liðin munu mætast aftur fyrir norðan.

Mörk Akureyrar: Bjarni Fritzson 10 (3), Oddur Gretarsson 7 (2), Bergvin Gíslason 1, Daníel Örn Einarsson 1, Hörður Fannar Sigþórsson 3, Heimir Örn Árnason 1, Geir Guðmundsson 1, Heiðar Þór Aðalsteinsson 1.
Varin skot: Sveinbjörn Pétursson 14 (1), Stefán Guðnason 1

Mörk FH: Ólafur Gústafsson 7, Ragnar Jóhannsson 2, Hjalti Þór Pálmason 4 (1), Atli Rúnar Steinþórsson 1, Örn Ingi Bjarkarson 1, Ari Magnús Þorgeirsson 1, Andri Berg Haraldsson 1,
Varin skot: Daníel Freyr Andrésson 13,

Nýjast