Bæði lið komu ákveðin til leiks í Höllinni í dag. FH staðráðnir í því að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn en Akureyringar ákveðnir í því að láta ekki gestina fagna titlinum á þeirra eigin heimavelli. Akureyri komst í 2:0 en FH jafnaði í 2:2 og jafnt var á tölum út hálfleikinn og skiptust liðin á að hafa forystu.
Sveinbjörn Pétursson varði ágætlega í fyrri hálfleik í marki Akureyrar eða 8 skot en Daníel Freyr Andrésson var aldrei þessu vant ekki heitur í marki FH og fékk Pálmar Pétursson tækifæri í marki FH-inga í fyrsta skiptið í úrslitaeinvíginu. Hann varði tvö skot í fyrri hálfleik og sá meðal annars til þess að FH færi með eins marks forystu í hálfleik með að verja frá Guðmundi Hólmari Helgasyni á loka andartökum fyrri hálfleiks, en Guðmundur Hólmar áttu arfa slakan leik fyrir Akureyri í dag og komst ekki á blað þrátt fyrir fjölmargar skot tilraunir.
Heimir Örn Árnason dró vagninn í sóknarleik Akureyrar í fyrri hálfleik og skoraði fjögur mörk auk þess að standa sín plikt í vörninni. Í liði FH voru þeir Ásbjörn Friðriksson, Ólafur Guðmundsson og Ólafur Gústafsson sem báru upp sóknarleikinn en vörn FH var þétt að vanda.
Staðan í hálfleik, 12:13 FH í vil.
Líkt og fyrri hálfleikurnn var sá seinni stál í stál framan af og jafnt á öllum tölum. Akureyri náði þriggja marka forystu eftir korters leik, 19:16, og var það mesti munurinn á liðunum hingað til í leiknum. Akureyri hefði getað komist fjórum mörkum yfir en þess í stað jöfnuðu FH-ingar í 19:19 þegar sex mínútur voru til leiksloka og allt í járnum í Höllinni.
Líkt og í fyrri leikjnum voru lokasekúndurnar rafmagnaðar af spennu. Akureyri komst í 23:21 en Ólafur Gústafsson minnkaði muninn í eitt mark, 23:22, þegar 40 sekúndur voru eftir.
Akureyri hélt í sókn og hefði getað klára dæmið endanlega en Halldór Logi Árnason, sem átti fína innkomu á línuna hjá Akureyri, skaut í slána, Daníel Einarsson tók frákastið en Pálmar Pétursson varði. FH fékk lokasóknina en tókst ekki að knýja fram framlengingu og Akureyringar fögnuðu gríðarlega í leikslok.
Lokatölur, 23:22.
Mörk Akureyrar: Heimir Örn Árnason 7, Bjarni Fritzson 4, Oddur Gretarsson 4 (2 úr víti), Halldór Logi Árnason 3, Daníel Einarsson 2, Hörður Fannar Sigþórsson 1, Guðlaugur Arnarsson 1, Hreinn Þór Hauksson 1.
Varin skot: Sveinbjörn Pétursson 24 skot.
Mörk FH: Ásbjörn Friðriksson 8 (5 úr víti), Ólafur Guðmundsson 5, Ólafur Gústafsson 5, Atli Rúnar Steinþórsson 2, Örn Ingi Bjarkarson 1.
Varin skot: Pálmar Pétursson 7, Daníel Freyr Andrésson 4.