Akureyrarvöllur verði byggður upp

Vinir Akureyrarvallar boðuðu til almenns borgarafundar í Sjallanum í gærkvöld, um framtíð vallarins. Ekki eru allir bæjarbúar á eitt sáttir við að völlurinn verði aflagður og svæðið tekið undir aðra starfsemi, samkvæmt staðfestu aðalskipulagi. Kom sú skoðun vel fram hjá frummælendum á fundinum, sem um 100 manns sóttu. Gert er ráð fyrir verslun og þjónustu, íbúðabyggð og útivistarsvæði á Akureyrarvallarsvæðinu. Í staðinn á að byggja upp aðstöðu á vallarsvæðum KA og Þórs og þá standa yfir viðræður milli bæjarins og Þórs um uppbyggingu á frjálsíþróttaaðstöðu á svæði félagsins við Hamar. Þrátt fyrir að búið sé að samþykkja nýtt aðalskipulag, eru vallarvinir ekki búnir að gefast upp og telja ekki of seint að snúa við og byggja Akureyrarvöll upp með glæsibrag. Þeir beindu orðum sínum ekki síst til þeirra bæjarfulltrúa sem mættu á fundinn.

Benedikt Guðmundsson, einn frummælenda, gerði grein fyrir þeim kostum sem hafa verið til umræðu og niðurstaða hans er sú að Akureyrarvöllurinn sé besti kosturinn. Hann sé besti kosturinn þegar horft er til þess að byggja aðstöðu í lágmarks hæð yfir sjó sem uppfyllir alla staðla varðandi frjálsíþróttaaðstöðu og knattspyrnuvöll samkvæmt kröfum KSÍ. Einnig þegar horft er til þess að bærinn er að stækka og iðkendum íþrótta fjölgar og félögunum veitir ekkert af þeirri aðstöðu sem þau hafa í dag til æfinga. Benedikt benti einnig á að á núverandi svæðum Þórs og KA væru möguleikar á stækkun takmarkaðir og þá mætti heldur ekki horfa fram hjá þeim möguleika að knattspyrnulið félagsins verði sameinuð í framtíðinni.

Benedikt sagði nauðsynlegt að taka tillit til athugasemda þeirra sem vilja halda svæðinu fyrir íþróttavöll, alla vega þar til raunhæfar lausnir eru komnar annars staðar í bænum. „Það hafa engar raunhæfar hugmyndir um aðra lausn komið fram hjá Akureyrarbæ og virðast þeir vera komnir í öngstræti með allt málið. Ég skora því á bæjarstjórnarmenn að taka sig saman og hætta að velkjast áfram með þetta mál án þess að komast að niðurstöðu þegar besti kosturinn liggur þegar fyrir hvernig sem á hann er litið. Tökum höndum saman og komum málum þannig fyrir að hægt sé að byrja endurbyggingu Akureyrarvallar strax í haust og ljúka framkvæmdum tímanlega fyrir landsmót UMFÍ árið 2009," sagði Benedikt.

Nýjast