Benedikt Guðmundsson, einn frummælenda, gerði grein fyrir þeim kostum sem hafa verið til umræðu og niðurstaða hans er sú að Akureyrarvöllurinn sé besti kosturinn. Hann sé besti kosturinn þegar horft er til þess að byggja aðstöðu í lágmarks hæð yfir sjó sem uppfyllir alla staðla varðandi frjálsíþróttaaðstöðu og knattspyrnuvöll samkvæmt kröfum KSÍ. Einnig þegar horft er til þess að bærinn er að stækka og iðkendum íþrótta fjölgar og félögunum veitir ekkert af þeirri aðstöðu sem þau hafa í dag til æfinga. Benedikt benti einnig á að á núverandi svæðum Þórs og KA væru möguleikar á stækkun takmarkaðir og þá mætti heldur ekki horfa fram hjá þeim möguleika að knattspyrnulið félagsins verði sameinuð í framtíðinni.
Benedikt sagði nauðsynlegt að taka tillit til athugasemda þeirra sem vilja halda svæðinu fyrir íþróttavöll, alla vega þar til raunhæfar lausnir eru komnar annars staðar í bænum. „Það hafa engar raunhæfar hugmyndir um aðra lausn komið fram hjá Akureyrarbæ og virðast þeir vera komnir í öngstræti með allt málið. Ég skora því á bæjarstjórnarmenn að taka sig saman og hætta að velkjast áfram með þetta mál án þess að komast að niðurstöðu þegar besti kosturinn liggur þegar fyrir hvernig sem á hann er litið. Tökum höndum saman og komum málum þannig fyrir að hægt sé að byrja endurbyggingu Akureyrarvallar strax í haust og ljúka framkvæmdum tímanlega fyrir landsmót UMFÍ árið 2009," sagði Benedikt.