Akureyrarvaka er hafin

Það voru krakkar af leikskólunum Tröllaborgum og Naustatjörn sem sungu afmælissönginn á meðan Halla …
Það voru krakkar af leikskólunum Tröllaborgum og Naustatjörn sem sungu afmælissönginn á meðan Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar, dró fánann að húni. Mynd: Ragnar Hólm.

Fáni Akureyrarvöku var dreginn að húni í Listagilinu á Akureyri kl. 10 í morgun en bæjarhátíðin Akureyrarvaka verður formlega sett kl. 20 í kvöld í Lystigarðinum. Þar verður þá haldin svokölluð Rökkurró með alls kyns uppákomum um allan garð fram eftir kvöldi. Af öðrum viðburðum kvöldsins má nefna Fjölskyldufjör í Íþróttahöllinni þar sem Húlladúllan bregður á leik með gestum og gangandi, allir velkomnir, og klukkan 22.30 halda Högni Egilsson og Sinfonia Nord Kvartett stutta stofutónleika í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi.

Dagskrá laugardagsins er þéttskipuð frá kl. 10 að morgni og fram yfir miðnætti. Á stórtónleikum í Listagilinu annað kvöld koma fram Bríet, Eik Haralds, Eyþór Ingi, Friðrik Dór og Helgi Björns. Hljómsveitin Vaðlaheiðin sér um undirleik. Meðan á tónleikunum stendur verða nærliggjandi byggingar skreyttar með litríkum vídeóverkum og kveikt verður á kertaflóði í kirkjutröppunum á Friðarvöku bæjarbúa sem hefur síðustu sjö árin leyst loftmengandi flugeldasýningu af hólmi.

Dagskráin er á www.akureyrarvaka.is.

 


Athugasemdir

Nýjast