Akureyrarkirkja 80 ára í dag

Akureyrarkirkja rís tignarlega á Grófargilshöfðanum.
Akureyrarkirkja rís tignarlega á Grófargilshöfðanum.

Akureyrarkirkja er 80 ára á í dag, þriðjudaginn 17. nóvember en kirkjan var reist árið 1940. Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur í Akureyrarkirkju, segir kirkjuna vera eitt helsta kennileiti bæjarins og tákn hans. „Fáar byggingar eru meira myndaðar og kirkjan með tröppunum er einn vinsælast viðkomustaður ferðafólks á svæðinu,“ segir Svavar.

Hann segir bæjarbúum annt um kirkjuna. „Kirkjan er mjög hjartfólgin Akureyringum og þeir taka ekki annað í mál en að hún og umhverfi hennar sé alltaf í besta ástandi. Margt gerir kirkjuna merkilega. Hún er auðvitað falleg og staðsetningin frábær en fólk á mjög stórar minningar sem tengjast þessari kirkju, frá ýmsum athöfnum tengdum tímamótum og þáttaskilum á mannsævinni. Kirkjan á brún brekkunnar hefur breitt ljós og hlýju yfir bæinn sinn.“

Kirkjustæðið það fegursta

Svavar segir að það hafi tekið sinn tíma að ákveða stað fyrir kirkjuna og það hafi verið umdeild ákvörðun að hafa hana á Grófargilshöfðanum. „Þegar það lá fyrir sagði húsameistari ríkisins, Guðjón Samúelsson, að kirkjustæðið á Akureyri væri það fegursta sem hann hefði séð, „bæði hérlendis og erlendis", eins og hann orðaði það. Hann teiknaði kirkjuna og er sagt að hann hafi haft tinda Vaðalfjalla til hliðsjónar þegar hann hannaði turna Akureyrarkirkju,“ segir Svavar Alfreð en Vaðalfjöll eru nálægt Skógum í Þorskafirði, fæðingarstað prestsins og þjóðskáldsins Matthíasar Jochumssonar.

 

 


Nýjast