Akureyrarbær styður Vísindaskólann

Sigrún Stefánsdóttir og Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri Akureyrar við undirritun samningsins.
Sigrún Stefánsdóttir og Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri Akureyrar við undirritun samningsins.

Akureyrarbær og Háskólinn á Akureyri hafa skrifað undir samning um styrk til Vísindaskóla unga fólksins. Markmið bæjarins með styrkveitingunni er að styðja við fjölbreytni í tómstundatilboðum til barna og gefa börnum á Akureyri tækifæri til þess að kynnast heimi vísinda og fræða. Vísindaskóli unga fólksins fór af stað á síðastliðnu vori og þá sóttu um 90 börn á aldrinum 11-13 ára skólann. „Viðbrögð þátttakenda voru afar góð og má gera ráð fyrir að mörg þeirra komi aftur, þar sem nýtt námsefni verður í boði. Vísindaskólinn mun starfa vikuna 20.-24. júní. Hópur starfsmanna Háskólans á Akureyri vann að þróun Vísindaskólans, en  verkefnið er fjármagnað að stórum hluta með styrkjum frá ýmsum félögum og samtökum,“ segir í tilkynningu. Sigrún Stefánsdóttir, talsmaður skólans, segir að viðbrögð samfélagsins hafi verið afar jákvæð og samningurinn við Akureyrarbæ sé ómetanlegur. Lögð er áhersla á að þemu Vísindaskólans tengist sem mest hefðbundnu námsframboði Háskólans. Að þessu sinni verður boðið upp á eftirfarandi þemu:

-Dómstóll barnanna

-Biophilia

-Umhverfis jörðina

-Tölvutækni og fréttaráp

-Betra líf í hraustum líkama

Innritun í skólann hefst í apríl en allar nánari upplýsingar og skráningu verður hægt að nálgast á heimasíðu skólans www.visindaskoli.is. Einnig er hægt að senda fyrirspurn á netfangið visindaskoli@unak.is

 

Nýjast