Akureyrarbær styður Vísindaskóla unga fólksins

Sigrún Stefánsdóttir.
Sigrún Stefánsdóttir.

Á fundi bæjarráðs Akureyrar 15. janúar sl. var samþykkt að veita 500.000 kr. til stuðnings verkefninu Vísindaskóli unga fólksins sem Sigrún Stefánsdóttir forseti Hug- og félagsvísindasviðs HA veitir forstöðu.Vísindaskóli HA er ætlaður ungu fólki á aldrinum 11-13 ára. Tilgangurinn er annars vegar að auka möguleika krakkanna á að taka þátt í uppbyggilegum verkefnum þegar formlegu skólastarfi lýkur að vori og hins vegar að kynna háskólann fyrir ungmennum á svæðinu og færa hann nær norðlenskum heimilum.

Boðið verður upp á fjölbreytt námskeið sem tengjast hefðbundnu námsframboði skólans og munu kennarar og nemendur HA sjá um kennsluna. Hluti starfsins fer fram innan veggja skólans en einnig fara nemendur hjólandi í vettvangsferðir og hitta sérfræðinga í ólíkum störfum, meðal annars í sjávarútvegi og fjölmiðlum. Vísindaskólinn verður starfræktur í fyrsta sinn í júní 2015 og verður framvegis árlegur viðburður. Gert er ráð fyrir 75 nemendum.

„Viðbrögð bæjarins hafa verið ómetanleg,“ segir Sigrún Stefánsdóttir í samtali við Akureyri.is. „Viðbrögðin við sjálfri hugmyndinni voru strax svo hlý og jákvæð og það skipti sköpum ekki síður en sá veglegi fjárhagslegi stuðningur sem bæjarvöld hafa veitt, sem gerir framkvæmdina mögulega. Nú eru starfsmenn allra sviða skólans að útfæra sín þemu í smáatriðum og á því verki að vera lokið núna í byrjun febrúar. Síðan hefst almenn kynning á verkefninu í kjölfarið og opnað verður fyrir skráningu í mars,“ segir Sigrún á vef Akureyrarbæjar.

Nýjast