Akureyrarbær hefur auglýst starf verkefnisstjóra vegna móttöku flóttamanna til umsóknar. Um tímabundna ráðningu er að ræða til eins árs. Starfið verður 100 % starf fyrri hluta ársins en 50% seinni hluta. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur verið ákveðiðað Akureyrarbær taki á móti hópi sýrlenskra flóttamanna. Á vef Akureyrarbæjar segir að starfið sé fólgið í því að hafa umsjón með móttöku flóttamanna og þjónustu við þá.
Náið samráð verði við ýmsar deildir Akureyrarbæjar, Rauða krossinn og fleiri aðila. Lögð verði áhersla á heildstæða þjónustu og þverfaglega vinnu og að nýir íbúar nái að finna fyrir öryggi og kynnast nýjum tækifærum. Meðal helstu verkefna sem nefnd eru í auglýsingunni má nefna, „að veita flóttamönnum aðstoð við daglegt líf í nýju landi og meta stöðu einstakra flóttamanna og þörf fyrir þjónustu.“
-þev