Boðað hefur verið til stofnfundar á einkahlutafélagi, sem verður í eigu sveitarfélaga á Norðurlandi. Tilgangur félagsins er að undirbúa möguleg kaup og leigu á jörðinni Grímsstöðum á Fjöllum. Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar mætti á fund bæjarráðs Akureyrar í morgun, þar sem málið var til umfjöllunar. Bæjarráð samþykkti með 4 atkvæðum gegn atkvæði Ólafs Jónssonar D-lista, að taka þátt í stofnun félagsins og var formanni bæjarráðs, Oddi Helga Halldórssyni, falið að fara með umboð Akureyrarkaupstaðar á fundinum.