Bæjarráð Akureyrar hefur samþykkt að fela framkvæmdaráði að yfirfara forgangsröðun í snjómokstri með tilliti til öryggis skólabarna á leið í og úr skóla. Gunnar Gíslason, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, vakti athygli á málinu eins og fjallað er ítarlega um í Vikudegi sem kom út í gær. Gunnar benti m.a. á að illa væri mokað í kringum skólana sem skapaði slysahættu fyrir börnin.
Gunnar óskaði bókað á bæjarráðsfundi: „Það þarf að huga að mokstri á göngustígum og gangstígum í kringum skólana og hvar snjó sem rutt er af stæðum og götum er komið fyrir við skólana. Það er slysahætta af leik barna í ruðningum sem liggja við götur eða plön þar sem umferð er mikil við skóla og þá hættu þarf að fyrirbyggja," segir í bókun sem var samþykkt einróma.