Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt Akureyrarbæ brotlegan vegna uppsagnar á tveimur fyrrverandi slökkviliðsmönnum. Bærinn rifti ráðningarsamningum þeirra fyrirvaralaust. Akureyri þarf að greiða um fimm milljónir króna í skaðabætur auk 2,1 milljóna króna málskostnaðar. Í málinu var ágreiningur með mönnunum og Akureyrarbæ um starfslok þeirra hjá Slökkviliði Akureyrar í byrjun desember 2012 eftir að hafa farið í eins árs launalaust leyfi í desember 2011 og ráðið sig til starfa hjá öðru fyrirtæki á meðan.
Eftir að viðræður um starfslok runnu út í sandinn mættu mennirnir því aftur til vinnu hjá slökkviliðinu en þá hafnaði Akureyrarbær vinnuframlagi þeirra.
Málið tengist deilum sem hafa staðið yfir lengi innan slökkviliðsins og beindust m.a. að samskiptum þeirra við fyrrverandi slökkviliðsstjóra, en mennirnir sökuðu hann um einelti. Annar mannanna er fyrrverandi aðstoðarslökkvistjóri og hinn fyrrverandi varðstjóri.
Í málinu gerðu mennirnir kröfur um vangoldin laun og laun í uppsagnarfresti. Auk þess kröfðust þeir skaðabóta, þ.e. tjóns vegna tekjutaps, miska vegna starfsloka, en jafnframt gerðu þeir kröfur um miskabætur vegna eineltis á vinnustað.
Akureyrarbær hafnaði öllum kröfum mannanna.
Þetta kemur fram á mbl.is en Akureyri Vikublað vakti fyrst athygli á málinu.