Akureyrarbær braut lög um opinber innkaup
Kærunefnd útboðsmála hefur komist að þeirri niðurstöðu að útboð Akureyrarbæjar vegna snjómoksturs og hálkuvarna til næstu þriggja ára hafi verið ólöglegt. Tvö verktakafyrirtæki á Akureyri, G. Hjálmarsson og G. V gröfur, kærðu útboð bæjarins en sextán fyrirtæki tóku þátt í útboðinu. Í úrskurði nefndarinnar segir m.a. að fyrir liggi að bærinn hafi ekki auglýst hið kærða útboð á EES-svæðinu og braut hann því gegn lögum um opinber innkaup.
Akureyrarbæ er gert að greiða hvoru verktakafyrirtækinu fyrir sig málskostnað upp á 200.000 kr. eða samtals 400.000 kr. Nánar er fjallað um þetta mál í prentútgáfu Vikudags sem kemur út í dag.
-þev