Akkúrat öfugt 2

Akkúrat öfugt 2
Akkúrat öfugt 2

Á næstu dögum er Akkúrat öfugt 2 væntanleg í bókabúðir. Bókin er önnur í bókaflokknum um líflegu og skemmtilegu sögupersónuna, Akkúrat öfugt. Bókaflokkurinn er samvinnuverkefni okkar hjóna.

Hugmyndin á bakvið sögupersónuna kviknaði þegar börnin okkar voru yngri og vildu oft á tíðum fara eigin leiðir við að framkvæma hlutina, svona eins og börn gera þegar þau eru að uppgötva sjálfstæði sitt. Við tókum hugmyndina skrefinu lengra og vildum ögra staðalímyndum í samfélaginu okkar. Markmið bókanna er því að fá lesendur til þess að hugsa hlutina á nýjan hátt, út frá ólíkum sjónarhornum. Við vonumst til þess að lestur bókarinnar ýti undir samtöl á milli foreldra ogbarna um þessar staðalímyndir og viljum við vekja athygli á og hvetja lesendur til þess að fara eigin leiðir óháð því hvað ,,normið“ er.

Í Akkúrat öfugt 2 er sagt frá ævintýrum sögupersónunnar á afmælisdegi hennar og þeim leiðum sem valdar eru til að fagna deginum. Í gegnum bókina koma reglulega spurningar sem ætlaðar eru til þess að lesandi geti staldrað við, velt þeim fyrir sér og virkjað ímyndunaraflið. Bókin er skrifuð sem léttlestrarbók og hugsuð fyrir alla. Litríkar myndirnar henta vel fyrir yngri börn og með auknum þroska geta þau tekið sífellt meiri þátt í að setja sögupersónuna í ýmsar aðstæður.

Akkúrat öfugt er kynlaus karakter og er það val lesandans að ákveða hvort og þá hvaða kyn verður fyrir valinu hverju sinni sem bókin er lesin. Sú ákvörðun er hluti af því að fara gegn staðalímyndum og leyfa lesendum að mynda eigin skoðanir á sögupersónunni út frá eigin upplifun.

Vinnan við bækurnar er tímafrek þar sem mikill tími fer í undirbúningsvinnu og við þurfum að hugsa vel út fyrir boxið sem við erum svo gjörn á að festast í. Þetta er því bæði mjög skemmtilegt en ásama tíma krefjandi fyrir okkur að finna leiðir fyrir Akkúrat öfugt til að fara gegn staðalímyndum. Við höfum verið svo heppin að hafa frábært fólk með í liðinu okkar við gerð bókanna. Alexandra Guðný Berglind Haraldsdóttir hefur séð um að glæða sögupersónurnar lífi með sínum líflegu og flottu teikningum. Hún hefur náð að skapa einstakan og litríkan heim fyrir sögupersónurnar okkar.  Skúli Bragi Geirdal hefur svo séð um uppsetningu og fínpússun á útliti bókanna. Við erum þeim afar þakklát fyrir framlag sitt til bókaflokksins. Uppátæki Akkúrat öfugt eru af ýmsum toga og við vonum að þiðhafið gaman að því að skora eigin staðalímyndir á hólm við lesturinn.

Höfundar eru:

Hildur Inga Magnadóttir, foreldra- og uppeldisfræðingur

og doktorsnemi

Ásgeir Ólafsson Lie, markþjálfi og ráðgjafi


Athugasemdir

Nýjast