Air66N hlaut hæsta styrkinn úr Þróunarsjóði

Akureyrarflugvöllur. Mynd: Hörður Geirsson.
Akureyrarflugvöllur. Mynd: Hörður Geirsson.

Iðnaðarráðherra, Oddný G. Harðardóttir, veitti í dag styrki samtals að upphæð 38,9 milljónir króna úr Þróunarsjóði Landsbankans og iðnaðarráðuneytisins. Afhending styrkja úr Þróunarsjóðnum fór fram í Listasafni Íslands. Um er að ræða fyrri úthlutunina úr sjóðnum en alls bárust 113 umsóknir um styrki og ákveðið var að veita samtals 20 styrki að þessu sinni.  Hæsta styrkinn, 5 milljónir króna, hlaut  Air 66N, til   að vinna að samstarfi um þróun og nýsköpun í ferðaþjónustu með það að markmiðið að skapa eftirspurn eftir reglulegu millilandaflugi um Akureyrarflugvöll allt árið. Fjölga á þann hátt ferðamönnum á Norðurlandi og lengja dvöl þeirra.

Þróunarsjóðurinn var stofnaður í tengslum við verkefnið Ísland allt árið.  Markmið sjóðsins er að lengja ferðamannatímabilið á Íslandi, með því að styrkja þróun afurða og upplifana utan háannatíma ferðaþjónustu og auka þannig arðsemi fyrirtækja í geiranum. Samtals lögðu stofnendur 70 milljónir í þróunarsjóðinn, 40 milljónir frá Landsbanka og 30 frá iðnaðarráðuneyti sem úthlutað skildi í tveimur úthlutunum.  Aðrir sem fengu styrki eru:

3.5 milljónir króna styrkur.

Pink Iceland – Winter Wedding Wonderland.

Til að kynna Ísland sem vænlegan kost fyrir brúðkaup og brúðkaupsferðir fyrir hinsegin ferðamenn allt árið.

3 milljónir króna styrkir.

Ríki Vatnajökuls - Veturinn í Ríki Vatnajökuls .

Til að þróa samstarf ferðaþjónustufyrirtækja á Suðausturlandi um þróun og markaðssetningu á þrenns konar ferðum: 1) Jöklar í Ríki Vatnajökuls, 2) Matarferðir í Ríki Vatnajökuls, 3) Ljósmyndun í Ríki Vatnajökuls.

Ögur ehf. - Gullkistan Ísafjarðardjúp.

Til að koma á samstarfi fjögurra ferðaþjónustufyrirtækja við Ísafjarðardjúp með það að markmiði  að fjölga ferðamönnum utan hefðbundins ferðamannatíma. Megináherslurnar eru matur,upplifun, ferðir, náttúruskoðun, fjaran, norðurljós, kyrrð og myrkur.

2 milljónir króna styrkir.

Alkemia - Andleg heilsunámskeið í Mývatnssveit.

Til að skipuleggja andleg heilsunámskeið í Mývatnssveit fyrir erlenda kennara sem koma með nemendum sínum til landsins. Umgjörðin er íslensk náttúra og kyrrð, jarðböð, heilsufæði og hlýjar móttökur fólksins í landinu.

Tanni ferðaþjónusta - A Road Less Travelled -Meet the locals.

Til að skipuleggja og kynna vetrarferðir þar sem lögð er áhersla á að ferðamaðurinn upplifi íslenska menningu í hnotskurn með þátttöku í samfélaginu. Ferðamaðurinn kveður ekki sem gestur heldur sem hluti af samfélaginu. 

Ytra Lón ehf.  - Langanes í sókn.

Til að gera átak í að þróa og kynna þjónustu og leiðsögn á Langanesi með það að markmiði að ná til einstaklinga og hópa utan hefðbundins ferðamannatíma.

1,9 milljón króna styrkur.

Fossavatnsgangan Ísafirði

Til að útbúa ferðir og ferðakosti fyrir gesti á Fossavatnsgönguna sérstaklega erlendis frá. Framleitt verður kynningar um mótið og vetrar- og ferðamennsku á Vestfjörðum.

1,8 milljón króna styrkur.

Fuglastígur á Norðausturlandi

Fuglastígur á Norðausturlandi er samstarfsvettvangur fyrirtækja og einstaklinga á Norðausturlandi um uppbyggingu fuglaskoðunar á svæðinu og ferðaþjónustu henni tengdri.

1,5 milljón króna styrkir.

Efla hf. - Ísgöng í Langjökli.

Til að vinna að gerð ísganga í Langjökli fyrir ferðamenn með það markmiði að bjóða ferðamönnum upp á einstaka og örugga upplifun þar sem ferðamenn kynnast einum stærsta jökli heims með hætti sem ekki hefur verið í boði áður.

Ferðaklasi á Austurlandi  - Vöruþróun, vetrarupplifun á Austurlandi .

Til að vinna að því að fjölga vetrarferðamönnum á Austurland og lengja heimsóknir þeirra. Sérstaða Austurlands verður dregin fram og lögð áhersla á óspillta náttúru, norðurljós, krásir og menningu.

Ferðaþjónustan Álfheimar - Vellíðun í Álfheimum

Til að skipuleggja og kynna ferðir, Vellíðun í Álfheimum. Um er að ræða  þar sem gestir dvelja  á Borgarfirði eystra og upplifa endurnýjun líkama og sálar í gegnum náttúru og þjónustu fagaðila.

Friðheimar

Til skipuleggja ferðir sem byggja á upplifun á fræðandi og seðjandi hátt, þar sem frætt verður um uppskeru tómata á Íslandi allan daga ársins.

Jarðvangurinn Katla Geopark - Katla Geopark,  dynamic destination. 

Til að byggja upp vetrarferðaþjónustu innan Jarðvangsins Kötlu Geopark með það að markmiði að lengja ferðamannatímabilið, auka framlegð ferðaþjónustufyrirtækja og framboð á þjónustu.

Sæferðir ehf. - Regnbogar náttúrulífsins við Breiðafjörð .

Til að vinn að átaki í lengingu ferðaþjónustutímans í Stykkishólmi  með það að markmiði að hann verði valinn einn af gæðaáfangastöðum Evrópu árið 2011. Upplifanir á litbrigðum og töfrum árstíðanna verða kynntar í náttúru og mannlífi.

Selasetur Íslands - Húnaþing frá hjartanu - einstök upplifun vor og haust. 

Til að vinna að því að ferðaþjónustuaðilar í Húnaþingi vestra sameinast um að skapa upplifanir fyrir ferðamenn utan háannatíma. Unnið verði m.a. með náttúru , hestamennsku, réttarstemmingu, veiðar og mat.

1,2 milljón króna styrkur.

Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar ehf. – Sögulandið Vesturland - allt árið.

Til að skipuleggja og þróa 4-5 daga ferðir um Vesturland með áherslu á sögu og menningararf svæðisins, einkum íslenskar miðaldabókmenntir og Íslendingasögur.

1 milljón króna styrkir.

Akureyrarstofa fyrir hönd samstarfsfyrirtækja. - Eljagangur – Blizzard / Wintersports festival in Akureyri Iceland.

Til að skipuleggja og halda árlega vetrarhátíð með áherslu á að kynna Norðurland erlendis sem miðstöð vetrarútivistar á Íslandi, skapa áhuga á Norðurlandi sem vetraráfangastað og styðja þannig við beint flug til Akureyrar.

Gistihúsið Skeið - Viðburðaátak fyrir utan háannatíma ferðaþjónustunnar.

Til að skipuleggja og halda 13 km náttúruhlaup, sögu og fræðslu kynningar, prjónaferðir, bókmenntaferðir og kynningar á Tröllaskaga.

Malarhorn ehf. Veisla í farangrinum og vetrarveiðar á ref.

Til að skipuleggja og bjóða upp á vetrarveiðar á ref yfir æti og að fylgja eftir sporum refa í nýföllnum snjó.

 

 

 

 

 

Nýjast