Áhyggjur í útgerðarbæ!

“Það er verið að tala um gríðarlega tilfærsu á fjármunum í þessu frumvarpi og því mun það hafa mikil áhrif verði það að lögum. Áhrifin hér á Akureyri verða e.t.v. minni en sums staðar annars staðar einfaldlega vegna þess hve fyrirtæki hér eru sterk,” segir Stefán B. Gunnlaugsson lektor   við viðskiptadeild Háskólans á Akureyri um frumvörpríkisstjórnarinnar um stjórn fiskveiða sem mælt var fyrir á Alþingi í gær.

 “Hins vegar er ljóst að jafnvel hér á Akureyri munu menn þurfa að grípa til umfangsmikilla hagræðingaraðgerða sem líklega mun koma niður á fjölda skipa, starfsfólks og umsvifum starfseminnar á svæðinu,” segir Stefán ennfremur.  Stefán hefur m.a. verið einn helsti óháði sérfræðingurinn um útreikninga á áhrifum breytinga á kvótakefinu á afkomu sjávarútvegsins og unnið skýrslur þar  um. Stefán segist enn vera að skoða hugsanleg áhrif af frumvarpinu og ekki tímabært að tjá sig um það í einstökum atriðum. Hann segir að ekkert sé um það í frumvarpinu hvað eigi að gera við  stórauknar   skatttekjur af veiðigjaldi, en vill að svo komnu máli ekki tjá sig um hvort eðlilegt sé að   sveitarfélög þar sem sjávarútvegsstarfsemin fer fram fái með einhverjum hætti bætt minnkandi umsvif sem þessu gæti fylgt með hlutdeild í þessu gjaldi.

 Áhrif á Samherja
Fulltrúar hagsmunaaðila í sjávarútvegi í útgerðarbænum Akureyri taka enn dýpra í árinni en Stefán og lýsa miklum áhyggjum þótt þeir eins og Stefán taki fram að lítill tími hafi verið til að skoða málið í einstökum atriðum.

Kristján Vilhelmsson hjá Samherja bendir á að í dag, fimmtudag muni samtök útgerðarmanna funda um málið. “Það liggur þó alveg í augum uppi að þetta mun hafa mjög  veruleg áhrif á allan rekstur Samherja á Íslandi, hann mun augljóslega minnka þar sem verulegur tilflutningur aflaheimilda er  úr því kerfi sem Samherji vinnur í í dag. Að sjálfsögðu mun ofurgjaldtaka á greinina hafa mjög veruleg neikvæð áhrif á reksturinn á margan hátt,” segir Kristján.  Hann bendir einnig á að í greinargerð með fruvarpinu sé beinlínis bent á alvarleg áhrif þess, sóun og að fyrirtæki muni jafnvel verða gjaldþrota.

 Vonbrigði sjómanna
Konráð Alfreðsson formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar segir fyrstu viðbrögð sjómanna vera vonbrigði. “Vonbrigði með að nú á að far í að skattpina sjávarútveginn og koma í veg fyrir að eðlileg endurnýjun og framþróun verði í greininni.”  Hann segir að það þurfi að ná sátt í þessum málum en með þessu sé einhliða gengið allt ogf langt og sátt því útlokuð í raun. Hann kveðst kvíða því fyrir hönd sjómanna hvernig útgerðin muni bregðast við og mæta þessum auknu álögum, en sjávarútvegurinn spili eftir þeim leikreglum sem stjórnvöld setji. Sér sýnist stefnan sett aftur til fortíðar, á gjörbreytt sjósóknarmynstur þar sem útgerðir selji jafnvel frá sér stærri skipin og smábátaútgerð taki við svo “við verðum að taka fram árarnar og belgvettlingana,” eins og hann orðaði það.

Nýjast