Ágreiningur um rekstur hjúkrunarheimila á Akureyri

Séð yfir Lögmannshlíð. Íbúðir fyrir allt að 60 manns og gætu mögulega verið tilbúnar til notkunar á …
Séð yfir Lögmannshlíð. Íbúðir fyrir allt að 60 manns og gætu mögulega verið tilbúnar til notkunar á árinu 2022.

Ágreiningur er á milli Akureyrarbæjar og stjórnvalda um rekstur hjúkrunarheimila. Á síðasta fundi bæjarráðs Akureyrar voru lögð fram endurskoðuð drög að samkomulagi um nýtt hjúkrunarheimili í bænum. Ríkið krefst þess af bænum að hann ábyrgist rekstur hjúkrunarheimilis í Lögmannshlíð sem stendur til að byggja, að öðrum kosti verði það ekki byggt. Bæjarstjórn stendur fast á kröfu sinni um að ríkið beri ábyrgð á rekstrinum, sem og öðrum hjúkrunarheimilum, sem bærinn hyggst hætta að koma að.

Mismuna sveitarfélögum

Í yfirlýsingu bæjarráðs er ríkið sagt mismuna íbúum því ef sveitarfélög fallist ekki á að taka á sig reksturinn falli þjónustan niður. Í yfirlýsingu bæjarráðs Akureyrar segir að samkvæmt lögum beri ríkið ábyrgð á rekstri hjúkrunarheimila. Hins vegar ber sveitarfélögum að greiða 15% af byggingarkostnaði hjúkrunarheimila á móti ríkinu sem greiðir þá 85%. „Af hálfu Akureyrarbæjar verður staðið við þá kostnaðarhlutdeild sveitarfélagsins í byggingu nýs hjúkrunarheimilis. Varðandi þá kröfu ráðuneytisins að setja sem skilyrði fyrir samningi um byggingu nýs hjúkrunarheimilis á milli Akureyrarbæjar og ríkisins að Akureyrarbær ábyrgist rekstur hjúkrunarheimilisins er ljóst að með því er verið að mismuna sveitarfélögum. Jafnframt gæti ráðuneytið með þessu skilyrði verið að mismuna íbúum á Íslandi, sem eiga rétt á þjónustunni, ef skilyrðið er að viðkomandi sveitarfélag ábyrgist reksturinn sem það síðan fellst ekki á,“ segir í yfirlýsingunni.

Mikill kostnaður vegna hallareksturs

Þá áréttar bæjarráð að ástæða þess að Akureyrabær fallist ekki á að ábyrgjast rekstur nýs hjúkrunarheimilis sé að sveitarfélagið hafi undanfarin ár rekið hjúkrunarheimili á Akureyri með miklum halla og ítrekað óskað eftir frekari greiðslum frá ríkinu vegna þess sem ríkið hefur ekki fallist á. Fyrir liggur rekstrarúttekt frá KPMG þar sem fram kemur að rekstrarhalli er ekki til kominn vegna þess að Akureyrarbær sé að veita þjónustu umfram kröfulýsingu. Með hliðsjón af því hefur Akureyrarbær nýlega tilkynnt ráðuneytinu að hann muni hvorki endurnýja gildandi samning né gera nýjan samning um rekstur hjúkrunarheimilisins. „Það er mat bæjarráðs Akureyrarbæjar með hliðsjón af framanrituðu að betur fari á því að ríkið annist rekstur hjúkrunarheimila eins og því ber samkvæmt lögum og sveitarfélagið nýti það fjármagn sem ella færi í að greiða niður hallarekstur hjúkrunarheimila í að efla lögbundna þjónustu sveitarfélagsins.“

Bærinn stífur í sinni afstöðu

Eins og Vikudagur hefur greint er áætlað að fara í framkvæmdir á viðbyggingu á dvalarheimilinu Lögmannshlíð á Akureyri á næsta ári. Þar munu rísa íbúðir fyrir allt að 60 manns sem gætu mögulega verið tilbúnar til notkunar á árinu 2022. Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, segir í samtali við Fréttablaðið að ennþá sé samtal í gangi á milli ráðuneytisins, framkvæmdasýslunnar og Akureyrarbæjar um þetta mál. Segir hún best að þetta mál leysist f jótlega svo hægt sé að koma hjúkrunarheimilinu í hönnunarsamkeppni og útboð. Engin tímamörk hafi þó verið ákveðin. „Þetta er okkar afstaða og við erum stíf á henni. Ég er alveg sannfærð um að ráðherra vilji leysa þessi mál,“ segir Ásthildur.


Nýjast