Krafa um gjaldfrjáls námsgögn í grunnskólum hefur mikið verið í umræðunni undanfarna mánuði. Umræðan kemur í kjölfar þess að Barnaheill settu af stað undirskriftasöfnun á síðasta ári til að þrýsta á að réttindi barna til gjaldfrjálsrar grunnmenntunar verði virt. Fyrr í vetur fengu stjórnvöld undirskriftalistann afhentan en hátt í sex þúsund manns skrifuðu undir.
Í maí samþykkti bæjarráð Reykjanesbæjar að veita grunnskólum fjárveitingu á næsta skólaári til kaupa á námsgögnum. Þannig yrði öllum grunnskólabörnum sveitarfélagsins veitt nauðsynleg námsgögn sér að kostnaðarlausu frá og með næsta hausti.
Svipaðar hugmyndir hafa verið uppi í öðrum sveitarfélögum. Vikudagur sagði frá því nýverið að Fræðsluráð Akureyrarbæjar hafi tekið málið til umfjöllunar. Fræðsluráð lagði til að öllum grunnskólabörnum í grunnskólum Akureyrarbæjar verði veittur hluti nauðsynlegra námsgagna þeim að kostnaðarlausu frá og með hausti 2017.
Skarpur kannaði hvort svipaðar hugmyndir væru uppi í Norðurþingi. Jón Höskuldsson fræðslufulltrúi Norðurþings segir í skriflegu svari við fyrirspurnum Skarps að öll námsgögn sem nemendum er gert skylt að nota séu gjaldfrjáls hjá grunnskólum Norðurþings og vísar í 31. grein grunnskólalaga.
Fyrsta málsgrein 31. greinar grunnskólalaga"Kennsla í skyldunámi í opinberum grunnskólum skal veitt nemendum að kostnaðarlausu og er óheimilt að krefja nemendur eða foreldra þeirra um greiðslu fyrir kennslu, þjónustu, námsgögn eða annað efni sem nemendum er gert skylt að nota í námi sínu og samrýmist ákvæðum laga þessara og aðalnámskrá. Sama á við um nám grunnskólanemenda í framhaldsskólaáföngum, enda sé námið skilgreint sem hluti náms í grunnskóla. Þó er opinberum aðilum ekki skylt að leggja nemendum til gögn til persónulegra nota, svo sem ritföng og pappír." |
„Námsgögn sem nemendum er gert skylt að nota eru gjaldfrjáls hjá grunnskólum Norðurþings en sveitarfélagið leggur nemendum ekki til gögn til persónulegra nota, svo sem ritföng og pappír. Þetta er vissulega umdeilanlegt og auðveldlega hægt að færa fyrir því rök að allt séu þetta gögn sem nemendum sé gert skylt að nota þar sem innkaupalistar skólanna gera ráð fyrir að skriffæri, vasareiknar og stílabækur t.d. séu fyrir hendi. Ef fallist er á þá skilgreiningu eru námsgögn ekki gjaldfrjáls hjá skólum Norðurþings,“ segir Jón.
Þá bendir Jón á að á síðasta ári hafi fræðslunefnd Norðurþings fjallað um um erindi Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem óskað var eftir því að kannað yrði hvernig kröfum grunnskóla sveitarfélagsins væri háttað varðandi námsgagnakaup nemenda. „Þá voru sveitarfélög hvött til að senda skólastjórum þau tilmæli að gætt væri samræmis og leitast yrði við að halda kostnaði sem félli á foreldra vegna námsgagnakaupa í lágmarki,“ segir Jón.
Fræðslufulltrúi kynnti erindið í kjölfarið á fundum með skólastjórum og segir Jón að þá hafi skapast umræða um gjaldfrjáls námsgögn s.s. ritföng, pappír og annað sem skólar óski eftir að nemendur kaupi. „Ekki hefur verið tekin nein ákvörðun í þessum efnum en ég hef verið að kynna mér með hvaða hætti slíkt hefur verið útfært í öðrum sveitarfélögum. Reikna ég með að málið verði rætt á fundi fræðslunefndar í ágúst og afstaða tekin til þess,“ segir Jón Höskuldsson, fræðslufulltrúi Norðurþings.