Áfram verði rekin 170 hjúkrunarrými á Akureyri

Brit Bieltvedt framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrar og Helga Erlingsdóttir hjúkrunarforstjóri kynntu skerðingu heilbrigðisráðuneytisins á hjúkrunarrýmum ÖA, á fundi félagsmálaráðs í vikunni. Í frumvarpi til fjárlaga ríkisins 2010 voru hjúkrunarrými á ÖA skert um 3, úr 170 í 167.  Vegna endurbóta á húsnæði í Hlíð var ekki full nýting á hjúkrunarrýmunum þar á árunum 2007 og 2008 en eftir að endurbótum lauk hefur verið full nýting á 170 hjúkrunarrýmum.  

Í bókun frá fundi félagsmálaráðs kemur ennfremur fram að ekkert samráð var haft við aðila á Akureyri vegna niðurskurðarins og var honum mótmælt harðlega. Ekki var tekið tillit til þeirra mótmæla í heilbrigðisráðuneytinu. Því er óskað eftir áliti félagsmálaráðs á því hvort fækka eigi hjúkrunarrýmum á ÖA um 3 til samræmis við þau daggjöld sem fyrirsjáanlegt er að greidd verða á þessu ári eða hvort áfram eigi að reka 170 hjúkrunarrými á ÖA og sækja um greiðslur fyrir aukarýmin í aukafjárlögum við árslok. Í þessu samhengi þarf að hafa í huga fækkun hjúkrunarrýma á FSA undanfarin ár.
Í ljósi þess að rýmum hefur fækkað á svæðinu undanfarin ár og eru nú þegar hlutfallslega færri en t.d. í Reykjavík og að biðlisti er nú heldur að lengjast telur félagsmálaráð nauðsynlegt að reka áfram 170 hjúkrunarrými á ÖA. Framkvæmdastjóra ÖA var falið, í samráði við formann félagsmálaráðs, að leita eftir endurskoðun heilbrigðisráðuneytis á þeirri ákvörðun að fækka hjúkrunarrýmum á svæðinu.

Nýjast