Um er að ræða mannleg mistök hjá Lögmannsstofunni ehf., sem fer með málið fyrir hönd sjóðsins, vegna misskilnings á auglýsingu um kröfulýsingarfrestinn. Ljóst er að tjónið getur orðið umtalsvert fyrir sjóðinn fari málið á versta veg og rýrt ávöxtun hans um 2-4%.
Búið er að vinna mikið í innlendu kröfuhöfunum og hefur þar náðst góður árangur en fjölmargir þeirra hafa þegar samþykkt málaleitan sjóðsins og allmargir hafa gefið jákvæð vilyrði þótt formlegt samþykki sé enn ekki komið. Í þeim efnum þarf m.a. að bíða stjórnarfunda hjá sumum aðilum og má búast við að niðurstaða hjá flestum komi áður en langt um líður. Einnig er unnið að fullum krafti í erlendu kröfuhöfunum, en ljóst er að til að koma kröfunni að þarf samþykki a.m.k. stærstu erlendu kröfuhafanna. Samin hefur verið greinargerð um sjóðinn, hvers konar aðili sjóðurinn er, hverjir eru greiðendur til hans og eiga þessa fjármuni o.s.frv. Greinargerðin hefur verið þýdd bæði á ensku og þýsku. Ráðin hefur verið erlend lögmannsstofa Nörr Stiefenhofer Lutz sem er mjög sterk á sviði ráðgjafar gagnvart fjármálafyrirtækjum. Þá hefur erlendur ráðgjafi sem hefur góð tengsl við þá erlendu aðila sem um ræðir einnig verið ráðinn til aðstoðar.
Ljóst er hins vegar að það tekur lengri tíma en gert var ráð fyrir í upphafi að fá niðurstöðu gagnvart erlendu kröfuhöfunum en hér er í mörgum tilfellum um stórar stofnanir að ræða þar sem ákvarðanaferill getur verið langur. Ráðgjafar Stapa hafa þegar sett sig í samband við þá og fundir eru ráðgerðir á næstunni. Þegar farið var á stað í þessa vinnu áttum menn von á því að hafa 2-3 vikur til að vinna að verkið. Nú er orðið ljóst að sá tími er mun lengri, en koma þarf kröfunni að áður en frumvarp um nauðarsamninginn er lagt fram. Vegna hinna fjölmörgu álitamála sem uppi eru vegna krafna á Straum, sem sum hver þarf að útkljá fyrir dómstólum, er ljóst að frumvarpið verður ekki lagt fram fyrr en í fyrsta lagi í nóvember og jafnvel síðar. Það gefur sjóðnum betri tíma til að vinna að farsælli lausn og að því verður unnið sleitulaust. Þetta kemur m.a. fram á vef Stapa.