Áfram skal kosið á einum stað á Akureyri

Undanfarnar vikur hefur kjörstjórnin á Akureyri staðið í ströngu við undirbúning komandi kosninga og hefur megináherslan hefur verið á þjóðaratkvæðagreiðsluna á morgun, laugardaginn 6. mars. Helgi Teitur Helgason formaður kjörstjórnar á Akureyri segir að vinna kjörstjórnar hafi gengið vel. Nú í morgun höfðu um 400 manns kosið utankjörfundar hjá sýslumanninum á Akureyri.  

"Það sem veldur okkur þó nokkrum áhyggjum er sú staðreynd nú munum við Akureyringar kjósa í annað sinn í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Eins og margir kjósendur muna eftir frá alþingiskosningunum í fyrra, sköpuðust umtalsverð vandræði við þá kosningu vegna þrengsla í skólanum. Í kjölfar kosninganna í fyrra gerði kjörstjórn ítarlega úttekt og skýrslu til bæjarstjórnar, þar sem leitast var við að greina vandamálin sem sköpuðust og leggja til lausnir sem ætlað er að koma í veg fyrir sambærileg vandamál í framtíðinni."

Helgi er nokkuð sannfærður um að ekkert hús á Akureyri sé betur til þess fallið en VMA, að þjónusta alla kjósendur í bænum. "Ef þessar aðgerðir okkar leiða ekki til ásættanlegri biðtíma og aðstöðu við kosningarnar framundan, er lítið annað að gera en að kjósa á tveimur stöðum í framtíðinni. Við hyggjumst sem sagt láta á það reyna að fullu hvort það takist að kjósa áfram á einum stað á Akureyri á þessu ári og reynslan verður að leiða í ljós hvort það gangi upp," segir Helgi.

Hann segir að ástæður þess að ekki sé tekið af skarið nú og kosið á tveimur stöðum, séu þær, að slíkt sé mun umfangsmeira og dýrara en kosning á einum stað.  "Allt umfang og utanumhald verður flóknara og meira, skipa þarf sérstaka hverfiskjörstjórn á hvorum kjörstað fyrir sig og þá er ljóst að kostnaður myndi aukast umtalsvert. Til þessa höfum við getað státað af tiltölulega hagkvæmum kosningum. Þær breytingar sem ákveðið hefur verið að gera á fyrirkomulaginu við komandi kosningar eru þær helstar, að nú verða 3 kjördeildir í hverri álmu Verkmenntaskólans í stað 5 í fyrra en að auki verður ein kjördeild við Gryfjuna svokölluðu. Þá verða allir inngangar í skólann opnir þannig kjósendur komast bæði út og inn á fleiri stöðum en í fyrra. Þá verða fleiri aðilar frá Súlum við störf á kjördag en í fyrra.  Það er einnig mikilvægt að kjósendur afli sér lágmarksupplýsinga t.d. um það í hvaða kjördeild þeim ber að kjósa. Það á heldur ekki að koma kjósendum á óvart, þótt þeir verði krafðir um persónskilríki á kjörstað," segir Helgi.

Kjördeildir og fyrirkomulag í VMA verður auglýst vel fyrir þessar kosningar og það auðveldar kjósendum að vita t.a.m. í hvaða kjördeild þeir eru. Þá er það þekkt staðreynd, að sögn Helga, að kjörsókn er yfirleitt mest uppúr hádegi og í tengslum við kosningakaffi stjórnmálaflokka og getur þá oft skapast bið sem ómögulegt er að gera sérstakar ráðstafanir vegna. "Þá eru gangarnir í álmum VMA á köflum í þrengra lagi og af þeim sökum er mjög óhentugt að geyma á göngunum stærstu gerðir af barnavögnum og öðrum farartækjum sem taka mikið pláss, ef hjá því er hægt að komast með nokkrum hætti."

Nýjast