Áfram blástur en minnkandi úrkoma

Enn um sinn er útlit fyrir hvassviðri og rigningu um miðbik Norðurlands. Veðurstofan spáir vaxandi suðaustanátt, 18-23 m/s síðdegis í dag, og rigningu öðru hverju. Á morgun verður suðvestan 13-18 og skýjað með köflum. Hiti verður á bilinu 8 til 15 stig í dag en síðan kólnar og gera má ráð fyrir að hitastig verði í kringum frostmark seinni partinn á morgun. Á föstudag er spáð suðvestan 8-13 m/s og léttskýjuðu veðri á Norður- og Austurlandi en síðan gengur í hvassa suðaustanátt síðdegis. Hiti verður 0 til 7 stig. Á laugardag er gert ráð fyrir suðvestanstormi eða roki og rigningu eða skúrum, en síðdegis lægir heldur. Þá verður 3 til 8 stiga hiti. Á aðfangadag býst Veðurstofan við sunnanátt og rigningu, einkum sunnan- og vestanlands. Þegar kemur fram á kvöldið tekur að kólna en framan af verður 5-10 stiga hiti. Suðvestanátt ræður svo að líkindum ríkjum á jóladag og annan í jólum með skúrum eða éljum og 0-5 stiga hita.

Nýjast