Áform um uppbyggingu þekkingarþorps á Háskólasvæðinu

Háskólasvæðið á Akureyri. Mynd/unak.is
Háskólasvæðið á Akureyri. Mynd/unak.is

Texti:  Margrét Þóra Þórsdóttir

maggath61@simnet.is

 

-Viðræður hafnar við áhugasama aðila um þátttöku í fyrsta áfanga verkefnisins

Stjórn Þekkingarvarða ehf. hefur kynnt áform um uppbyggingu þekkingarþorps á svæði við Háskólann á Akureyri. Um er að ræða lóð sem á deiliskipulagi Háskólasvæðisins er merkt sem svæði til framtíðaruppbyggingar. Þekkingarvörður hafa sótt um lóðina til Skipulagsráðs Akureyrarbæjar.

Hólmar Erlu Svansson hefur fyrir hönd félagsins óskað eftir viðræðum við Akureyrarbæ um lóðina. Hún er í aðalskipulagi Akureyrarbæjar frátekin undir háskólastarfsemi á vegum HA.  Þekkingavörður er þróunarfélag í eigu Háskólans á Akureyri, Akureyrarbæjar, KEA, Tækifæris, Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi eystra, Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og Samtaka iðnaðarins. Félagið var stofnað í þeim tilgangi að vinna að uppbyggingu þekkingarþorps við Háskólann á Akureyri. Með þekkingarþorpi er vísað til vísinda- og tæknigarða sambærilega Vísindagörðum í Vatnsmýri í Reykjavík.

Viðræður hafnar við þá sem hugsanlega hafa áhuga

Fram kemur í bréfi Hólmars til skipulagsráðs að mikilvægt sé að fá strax til liðs aðila sem stunda rannsóknir og þróun og uppfylla skilyrði til samstarfs við háskólann. Greinir hann frá því að viðræður standi yfir við slíka um að koma inn í fyrsta áfanga við uppbyggingu garðanna. Í hópi þeirra sem rætt hefur verið við nefnir hann nýtt Hermi- og færnikennslusetur heilbrigðisvísindasviðs HA, sem er verkefni sem snýst um að taka inn í skólann aukið hlutfall af klínískri hermi- og færnikennslu í heilbrigðisvísindum. Eins nefnir hann að kallað hefði verið eftir eflingu og auknum sýnileika Norðurslóðamiðstöðvar Íslands á Akureyri.

„Síðast en ekki síst hefur hugmyndin verið kynnt fyrir Arctic Therapeutics, lyfjaþróunarfyrirtæki Hákonar Hákonarsonar læknis, sem hefur stórtækar áætlanir í sinni uppbyggingu hér á Akureyri og fellur þessi hugmynd vel að þeim framtíðarplönum,“ segir Hólmar í bréfi sínu.

Einfalt og stílhreint stálgrindarhús

Fram kemur að Þekkingarvörður óskar eftir að fá lóðina endurgjaldslaust með sambærilegum hætti og Reykjavíkurborg gaf Háskóla Íslands lóðir í Vatnsmýri til uppbyggingar vísindagarða. Lýsir félagið sig reiðubúið að taka við lóðinni án deiliskipulags, það myndi sjálft fjármagna slíka vinnu yrði það til þess að flýta ferlinu.  „Við sjáum fyrir okkur einfalt og stílhreint stálgrindarhús með vel aðgreindum áföngum byggt í einkaframkvæmd gegn langtímaleigusamningi en húsið yrði að loknum leigutíma eign ríkisins, enda teljum við mjög mikilvægt að hafa full yfirráð fyrir háskólasvæðinu til framtíðar til að hindra ekki eðlilegan vöxt háskólans,“ segir Hólmar ennfremur. /MÞÞ


Nýjast