Fyrirlestraröðinni var vel tekið síðasta vetur og sóttu erindin á þriðja hundrað manns, bæði félagar í Akademíunni og aðrir áhugasamir. Með fyrirlestrunum er ætlunin að bjóða upp á fjölbreytt efni af sem flestum sviðum vísindanna og búa þannig til vettvang fyrir fræðimenn að miðla efni sínu en efla jafnframt „alla dáð", eins og skáldið sagði. Fyrirlestrarnir eru haldnir eftir hefðbundinn vinnutíma svo vinnan standi ekki í vegi fyrir að áhugasamir geti komið. Í AkureyrarAkademíunni eru um 14 fræðimenn með starfsaðstöðu. Hún er til húsa í Gamla Húsmæðraskólanum við Þórunnarstræti 99.
Laugardaginn 13. september stendur AkureyrarAkademían fyrir allsherjar afmælismálþingi til heiðurs kartöflum, frá kl. 13 og fram eftir kvöldi.
Tilefnið er ekki eingöngu alþjóðlegt ár kartöflunnar í ár, heldur einnig 250 ára ræktunarafmæli kartaflna á
Íslandi og það að 200 ár eru liðin síðan ræktun þeirra hófst í Búðargilinu á Akureyri.
Málþingið var styrkt af Menningarráði Eyþings og er hugsað sem væn blanda af fræðum, listum, ræktun og matargerð með erindum,
uppákomum, veisluhaldi og dansi - fræðandi og nærandi. Þátt tekur garðyrkjufólk sem og ræktendur, myndlistafólk, sagnfræðingar,
bændur, dansari og tónlistafólk. Í hópi þeirra eru þau Hildur Hákonardóttir, myndlistakona og rithöfundur, og Bergvin
Jóhannsson, formaður kartöfluræktenda. Matargerðarsnillingarnir á veitingastaðnum Friðrik V töfra fram kartöflurétti og hljómsveit
leikur fyrir dansi um kvöldið. Málþingið er öllum opið og er aðgangur ókeypis.