Afmælisárið opnað með þrettándagleði

Íþróttafélagið Þór á Akureyri var stofnað 6. júní 1915 og verður því hundrað ára á árinu. Af því tilefni stendur félagið fyrir margs konar viðburðum allt árið. Sá fyrsti verður þriðjudaginn 6. janúar þegar Þórsarar syngja og dansa út jólin með óvenju veglegri þrettándagleði á Þórssvæðinu.
 
Hátíðahöldin hefjast kl. 17 með því að Barna- og Æskulýðskórs Glerárkirkju tekur á móti gestum með söng utan við Bogann. Inni í Boganum skemmtir dansflokkurinn Vefarinn gestum ásamt því að hægt verður að versla sér kaffi, kakó, vöfflur og gos.
Klukkan 18 verður skrúðganga yfir á Þórsvöllinn og í stúkuna undir forystu álfakóngs- og drottningar ásamt 100 kyndlaberum. Púkar, tröll og jólasveinar mæta að sjálfsögðu á svæðið eins og alltaf.

Á Þórsvellinum fer fram skemmtidagskrá. Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri setur hátíðina og afmælisár Þórs formlega. Gamlir Þórsarar verða heiðraðir. Jón Jósep Snæbjörnsson, betur þekktur sem Jónsi í Svörtum fötum, og hinn góðkunni Óskar Pétursson skemmta gestum með söng, álfakóngurinn flytur ávarp, hann og álfadrottningin syngja og að síðustu stíga jólasveinarnir á svið og syngja út jólin um kl. 19.
Allir bæjarbúar og aðrir velunnarar félagsins eru velkomnir á þrettándagleði Þórs. Aðgangur er ókeypis. Þrettándagleðin er skipulögð af félaginu í samstarfi við Viðburðastofu Norðurlands, og með góðum stuðningi frá Akureyrarstofu.
 
Áfram mun félagið og deildir þess standa fyrir viðburðum, hefðbundnum og óhefðbundnum, út allt afmælisárið. Sumir þessara viðburða fara fram ár eftir ár, eins og kappleikir og mót í þeim íþróttagreinum sem innan félagsins eru starfræktar, sumir þessara viðburða verða gerðir enn veglegri en venjulega í tilefni af afmælisárinu. Sjálfan afmælisdaginn, 6. júní, ber upp á laugardag og þá verður mikið um dýrðir á félagssvæðinu. Nánar verður greint frá þeim hátíðahöldum síðar sem og öllum viðburðum ársins jafnóðum og þá ber að.
 
Aðalstjórn Þórs lét hanna sérstakt afmælismerki þar sem gullinn sveigur og borði ásamt áletruninni 100 ára – 1915-2015 ramma inn Þórsmerkið, sem áfram verður að sjálfsögðu tákn félagsins. Afmælisumgjörð Þórsmerkisins er hönnuð af Arnari Sigurðssyni á Geimstofunni.

Nýjast