Aflið ákallar þingmenn

Húsnæði Aflsins á Akureyri.
Húsnæði Aflsins á Akureyri.

Forystumenn Aflsins á Akureyri, samtökum gegn kynferðis- og heimilisofbeldi, hafa sent bréf til allra þingmanna þar sem skorað er á þá að leggja meira fjármagn í rekstur félagsins. Eins og Vikudagur greindi frá í haust er rekstrarstaða Aflsins í molum og hætt við að starfsemin leggist af á næstu árum verði ekkert að gert. Forsvarsmenn Aflsins hafa hrint af stað undirskriftasöfnun máli sínu til stuðnings.

Í bréfinu til þingmannana segir: „Aflið hefur verið starfandi frá árinu 2002 og hefur frá upphafi barist við of lítið fjármagn. Staðan núna er mjög alvarleg og er útlit fyrir að Aflið leggist af innan örfárra ára ef ekki verður aukið við fjármagn til starfseminnar og er það sú staða sem er kveikjan að þessu bréfi. Ofbeldi er mjög alvarlegt samfélagsmein sem bæði er dýrkeypt fyrir þolendur og fjölskyldur þeirra, fjölskyldur ofbeldisfólksins og ekki síður fyrir samfélagið í heild sinni.

Því skiptir það sköpum fyrir velferð samfélagsins að hlúa vel að þeim samtökum sem sinna þjónustu við þolendur sem til þeirra leita. Það er alveg ljóst að slík samtök hafa veitt fólki von til að lifa betra lífi. Þau hafa aðstoðað fólk við að vinna bug á alvarlegum afleiðingum sem jafnvel hafa kostað fólk lífið en einnig gefið fólki tækifæri til að finna styrk sinn til að verða aftur virkari þegnar í samfélaginu og atvinnulífinu.

„Krefjandi vinna sem engum ætti að bjóðast að vinna til lengdar af hugsjón einni saman“

„Frá upphafi hafa ráðgjafar Aflsins unnið hluta vinnu sinnar í sjálfboðavinnu og oft hefur ekki verið til fjármagn til að starfrækja alla þá sjálfshjálparhópa sem þörf hefur verið fyrir. Það vita allir þeir sem komið hafa nálægt vinnu með þolendum ofbeldis og forvarnarstarfi á þeim vettvangi að um er að ræða mjög krefjandi vinnu sem engum ætti að bjóðast að vinna til lengdar af hugsjón einni saman. Önnur sambærileg samtök á landinu, til dæmis Stígamót og Kvennaathvarfið, hafa alla tíð borgað sínum starfsmönnum laun og það á að vera sjálfsagt og nauðsynlegt til þess að starfsfólk hafi úthald í þeirri vinnu að veita viðtöl við þolendur, fræðslu og annað sem til þarf til að berjast gegn ofbeldi í okkar litla landi.

Því hlýtur að vera komið að því að Aflið geti starfað af fullum krafti án þess að treysta á fórnfýsi sömu fáu einstaklinga ár eftir ár eftir ár. Því höfum við, sem skrifum undir þetta skjal, ákveðið að senda ákall til allra þingmanna og þeirra ráðherra sem að málinu koma um að setja þennan alvarlega og dýrkeypta málaflokk í forgang og leggja fram það fjármagn sem nauðsynlegt er til að Aflið geti sinnt hlutverki sínu!“

Hægt er skrá sig á undirskriftalistann hér.

Nýjast