Miða þær að því að draga úr kostnaði við rekstur safnsins til samræmis við almenna hagræðingu í rekstri Akureyrarbæjar. Meginbreytingin er fólgin í því að samningsbundin vísitöluhækkun er felld úr gildi og framlög bæjarins til safnsins lækka um 500 þúsund krónur á þessu ári og um eina milljón á því næsta. Þá varð að samkomulagi að samningslok verði í árslok 2011.
„Það er eðlilegt að kreppan hafi áhrif á rekstur Listasafnsins á Akureyri eins og allt annað í samfélaginu, þar þurfa allir að taka á sig niðurskurð," segir Hannes. Samkomulagið sem nýlega var gert segir hann vera slaufu á farsælt samstarf félags hans, Art.is og Akureyrarbæjar, en félagið hefur rekið safnið undanfarin 5 ár. „Með þessu samkomulagi bindum við enda á okkar ágæta samstarf, en ég mun reka safnið til loka næsta árs," segir hann.
Framlög til safnsins verða lægri í ár og á því næsta og segir Hannes að gestir muni einkum verða þess varir í því að minna verði en áður um stórar sýningar sem komi frá útlöndum og eins verði umsvif safnsins á sviði útgáfumála veigaminni en verið hefur. Fjölmargar stórar og dýrar sýningar hafa undanfarin ár verið á safninu, m.a. frá Kína, Rússlandi og Bandaríkjunum en Hannes segir að eftir gengishrun og gríðarlegar hækkanir verði vart gerlegt að bjóða upp á slíkar sýningar í bráð. „En ég vona þó að þær muni ekki alveg detta upp fyrir," segir hann.
Þá hefur safnið iðulega verið með myndarlega útgáfustarfsemi í tengslum við sýningar en Hannes segir að dregið verði úr því á næstu misserum. „Við höfum stundum gefið út heilu bækurnar, en ég sé fyrir mér að þetta verði minna í sniðum í framtíðinni," segir hann.