Aflaverðmæti skipa Brims um 8 milljarðar á síðasta ári

Aflaverðmæti skipa Brims hf. var um 8 milljarðar króna á síðasta ári en árið 2009 var aflamverðmæti skipa félagsins um 7,3 milljarðar. Á síðasta ári voru unnin um 8.600 tonn af hráefni hjá landvinnslu félagsins á Akureyri og útflutningsverðmætið var um 4,3 milljarðar, að sögn Ágústar Torfa Haukssonar framkvæmdastjóra landvinnslunnar.  

"Starfsmenn voru að jafnaði um 130 á árinu en auk þess voru hjá okkur 36 skólakrakkar í sumar." Ágúst Torfi segir að reksturinn hafi gengið vel á fyrri hluta ársins 2010 en að hann hafi verið erfiðaðri síðari hlutann vegna minnkandi veiðiheimilda og styrkingar gengis krónunnar.

"Varðandi breytingar á nýju ári á rekstrinum og starfseminni þá er skemmst frá því að segja að við vitum ekki hvaða breytingar stjórnvöld vilja ráðast í og þar af leiðandi ekki hvaða áhrif þær hafa á rekstrarumhverfi okkar. Það ríkir mikil óvissa um áform stjórnvalda og á meðan að svo er bíðum við í óvissu. Sé tekið mið af stefnu stjórnarflokkanna í málefnum sjávarútvegsins þá munu þær breytingar, ef ná fram að ganga, að öllum líkindum veikja stöðu landvinnslu hér á Akureyri," segir Ágúst Torfi.

Nýjast