Forsendur upphaflegrar áætlunar hafa að mestu haldið. Reiknað var með 7% verðlagsbreytingu á milli ára en endurskoðuð áætlun gerir ráð fyrir 7,9% hækkun verðlags. Þessar forsendur hafa mikil áhrif á fjármagnsgjöld eins og kom fram í upphaflegri áætlun en reiknað var með halla upp á tæpar 1.100 milljónir króna. Í endurskoðaðri fjárhagsáætlun kemur fram að skatttekjur bæjarins hækka um 426 m.kr. og verða 7.443 m.kr. Munar þar mestu um auknar útsvarstekjur upp á 318 m.kr. Þetta skýrist fyrst og fremst að því að efnahagsþrengingar þjóðarinnar hafa ekki komið jafn þungt niður á rekstri Akureyrarbæjar og útlit var fyrir í upphafi ársins.
Útgjöld bæjarsjóðs hafa á móti hækkað um 366 m.kr. og vega þar þyngst kjarasamningsbundnar launahækkanir og hækkun tryggingargjalds sem rennur í atvinnuleysistryggingasjóð. Innri húsaleiga bæjarins hækkar einnig um rúmar 94 m.kr. og annar kostnaður um 164 m.kr. Framlag til reksturs Öldrunarheimila Akureyrarbæjar hækkar um tæpar 50 m.kr. og verður samtals 183 m.kr.
Í vor var samþykkt sameining sveitarfélaganna Grímseyjarhrepps og Akureyrarkaupstaðar og hafa áhrif sameiningarinnar nú verið tekin inn í fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar. Tekjur og útgjöld vegna hennar eru nánast jafn háir liðir, tekjurnar þó aðeins hærri en gjöldin.
Endurskoðað framkvæmdayfirlit gerir ráð fyrir auknum framkvæmdum upp á um 240 m.kr. og er stærsti einstaki liðurinn þar framkvæmdir við glæsilegt íþróttasvæði við Hamar vegna Landsmóts UMFÍ sl. sumar. Lántaka Akureyrarbæjar á þessu ári lækkar um 1.100 m.kr. sem stafar að stærstum hluta af því að lokið var að mestu við fjármögnun ársins 2009 í árslok 2008.
Niðurstaðan er bætt afkoma í A-hluta samstæðunnar um sem nemur 111 m.kr. Rekstrarhalli A-hluta verður því 985 m.kr. í staðinn fyrir tæpar 1.100 m.kr. sem gert hafði verið ráð fyrir í fyrri fjárhagsáætlun. Afkoma samstæðunnar í heild batnar um 155 m.kr. frá fyrri áætlun, segir í fréttatilkynningu frá Akureyrarbæ.