Af náttúruvernd

Mynd AP arkitektar. Mögulegar birtingarmyndir Norðurhafnar.
Mynd AP arkitektar. Mögulegar birtingarmyndir Norðurhafnar.

Samtök um verndun í og við Skjálfanda, Samtök um Náttúruvernd á Norðurlandi og framkvæmdastjóri Landverndar skrifa:


Eins og margir íbúar á Norðausturlandi vita, hefur fyrirtækið Íslandsþari ehf. sótt um lóð á hafnarsvæðinu á Húsavík og er það önnur lóðin sem fyrirtækið sækir um, en áður hafði fyrirtækið sótt um og síðan fallið frá lóðaumsókn við Hrísmóa á Húsavík. Samkvæmt nýjustu bókun skipulags- og framkvæmdaráðs Norðurþings, hefur Íslandsþari nú tilkynnt frestun á núverandi lóðaumsókn, en yfir 40 athugasemdir bárust frá íbúum og fyrirtækjum um deiliskipulagstillögu sveitarstjórnar Norðurþings og eru það fleiri athugasemdir en í nokkru öðru máli í skipulagsgerð hjá Norðurþingi.

Íslandsþari hefur áform um að reisa um 4.000 til 6000 fermetra vinnsluhúsnæði til að hýsa vinnsluhluta afurðar sinnar ásamt aðstöðu til þróunar á starfseminni. Unnið verður úr allt að 40.000 tonnum á ári af þarablöðum og stilkum og stefnt að því að vinnslan verði byggð upp í áföngum á 6 ára tímabili.

Málið er þó stærra en svo að það varði aðeins Norðuþing og íbúa þess.

Þaraupptaka úti fyrir Norðurlandi

Samkvæmt heimild sem Íslandsþari hefur fengið frá Atvinnuvega og Nýsköpunarráðuneyti er gert ráð fyrir að stórþara verði safnað undan annesjum á Norðurlandi, mögulega frá Vatnsnesi í Húnaflóa allt austur að Langanesi. Fyrirhugað er að söfnun á þara eigi sér stað á átta staðsetningum á Norðurlandi, en þær staðsetningar eru:

Þaragrein 1

Vatnsnes, Skagi, Tröllaskagi, Flatey, Tjörnes, Slétta-vestur, Slétta-austur, Þistilfjörður. Mynd: Mannvit

Hlutverk stórþara í vistkerfi hafsins

Þaraskógar gegna afar þýðingarmiklu hlutverki við bindingu kolefnis, sem er mikilvægt á tímum loftlagsbreytinga og súrnunar sjávar, sem rekja má til aukins styrks kolefnis í andrúmslofti af mannavöldum. Þá eru t.a.m. brúnþörungar, sem er sú þarategund er byggir þaraskógana úti fyrir Norðurlandi, frumframleiðendur sem mynda undirstöðu lífríkis á grunnsævi (Krause-Jensen og Duarte 2016). Þá gegna þaraskógar mjög mikilvægu hlutverki sem búsvæði annarra plantna og dýra, auk þess að vera fæða ýmissa hryggleysingja. Skógarnir eru t.a.m. uppeldisstöðvar ýmissa fisktegunda, ásamt því að vera mikilvæg fæðuöflunarsvæði fugla og sjávarspendýra (t.d. Fredriksen 2003).

Reynslan frá Noregi

Rannsóknir í Noregi, þar sem sambærilegum aðferðum við þaratöku er beitt og fyrirhuguð er af hálfu Íslandsþara, hafa sýnt fram á að við nýtingu fækkaði ásætum og hryggleysingjum mikið og áhrifa varð vart á mörgum fæðuþrepum (Norderhaug o.fl. 2020).
Hæð þaraskógarins lækkaði, plöntur urðu styttri og þéttleiki blaða meiri þegar þær uxu aftur sem olli því að þéttleiki undirgróðurs varð einungis þriðjungur af því sem áður var. Fjölbreytni og magn ásætna og hryggleysingja hafði ekki náð fyrra ástandi að 4 árum liðnum og nýting á 5 ára fresti var ekki talin sjálfbær. Þéttleiki smáfiska eins og þorskfiskseiða varð minni á vinnslusvæðum og erfiðara varð fyrir sjófugla að sækja sér fæðu á þeim svæðum sem höfðu orðið fyrir raski vegna þaraupptöku.

Þaragrein 2

Nýlega uppskorinn þaraskógur í Noregi með sambærilegri aðferð og fyrirhuguð er fyrir Norðurlandi. Úr: Christensen-Dalsgaard, S., Mattisson, J., Norderhaug, K.M., Lorentsen, S-H. 2020.

Brottrækir í Skotlandi

Áætlanir skoska fyrirtækinsins Marine Biopolymers Ltd. sem fólu í sér stórtækar þaratökur úti fyrir vesturströnd Skotlands voru stöðvaðar af skoska þinginu síðla árs 2018, eftir kröftug mótmæli umhverfisverndarsamtaka. Sama fyrirtæki sótti svo um rannsóknarleyfi á Íslandi, úti fyrir Norðurlandi, og stendur nú að baki fyrirtækinu Íslandsþara. Hafrannsóknastofnun, ein umsagnaraðila, hefur fjallað um leyfi Marine Biopolymers Ltd/Íslandsþara til rannsókna, en öll umræða og umfjöllun um nýtingu á eftir að fara fram. Ekkert nýtingarleyfi hefur verið gefið út á grundvelli laga um stjórn fiskveiða nr. 116/2006. Þá virðast Lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana (nr. 111/2021) ekki hafa tekið til þessarar framkvæmdar, en markmið laganna er: a. sjálfbær þróun, heilnæmt umhverfi og umhverfisvernd sem vinna skal að með umhverfismati framkvæmda og áætlana sem eru líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif,  b. skilvirkni við umhverfismat framkvæmda og áætlana, c. að almenningur hafi aðkomu að umhverfismati framkvæmda og áætlana og samvinna aðila sem hafa hagsmuna að gæta eða láta sig málið varða vegna umhverfismats framkvæmda og áætlana.

Háværar kröfur um náttúruvernd

Á COP15 ráðstefnunni í Montreal í desember 2022, var Ísland í hópi þeirra 180 landa sem gerðust aðilar að svokölluðu Samkomulagi um líffræðilegan fjölbreytileika, en eitt brýnasta atriði samkomulagsins hljóðar upp á  „Áhrifaríka verndun og stýringu að minnsta kosti 30% af landi, ám og vötnum, strandsvæðum og hafsvæðum, með áherslu á svæði sem gegna mikilvægu hlutverki fyrir vistkerfi og líffræðilegan fjölbreytileika“ – fyrir árið 2030. Til viðmiðunar er verndun hafsvæða í kringum Ísland um 0,7%.

Þá er Ísland aðili að nýlega undirrituðum úthafsáttmála Sameinuðu þjóðanna um verndun og sjálfbæra nýtingu alþjóðlegra hafsvæða.

Í landrýnistefnu íslenskra stjórnvalda um innleiðingu Íslands á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun frá árinu 2019 kemur fram að það sé yfirlýstur vilji stjórnvalda að vinna með atvinnulífinu að vernd hafsins og sjálfbærri nýtingu auðlinda þess með samhentum aðgerðum.

Það er því  álit SVÍVS, SUNN og framkvæmdastjóra Landverndar að áformuð stórtæk þarataka úti fyrir ströndum Norðurlands, sem að miklum líkindum mun hafa neikvæð áhrif á vistkerfi og bindingu kolefnis séu í andstöðu við yfirlýst markmið og alþjóðlegar skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist. Þá eru lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana höfð að engu í þessu máli, sem ber að líta alvarlegum augum, auk þess sem áhrif á aðra atvinnuvegi á svæðinu eins og hvalaskoðun og fiskveiðar hafa ekki verið skoðuð.

Framtíðarsýn

Það er mikilvægt hverju samfélagi að staldra við og horfa yfir farinn veg, meta núverandi stöðu og setja stefnu til framtíðar – til farsældar fyrir alla. Og það er mikilvægt manneskjunni að muna að við erum öll hluti af náttúrunni og náttúran er hluti af okkur. Gamalt Kenískt máltæki segir: Við fengum náttúruna ekki í arf frá forfeðrum okkar, við höfum hana að láni frá börnum okkar. Það er okkar hlutverk að ganga svo um náttúruna að hún megi áfram þjóna tilgangi sínum þegar okkar dagar eru taldir. Að náttúran fái að njóta vafans.

Þegar við tökum ákvarðanir dagsins í dag, má segja að við tökum þær ekki aðeins fyrir okkur, heldur fyrir þá sem á eftir okkur koma. Hvernig samfélag viljum við byggja fyrir börnin okkar og komandi kynslóðir? Hvernig störf viljum við skapa? Hvers virði er náttúran okkar? Þetta eru spurningar sem þarf að hafa í huga við ákvarðanatökur alla daga.

Þaragrein 3

Mynd AP arkitektar. Mögulegar birtingarmyndir Norðurhafnar.

 

Auður Anna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar

Harpa Barkardóttir, formaður stjórnar SUNN

Huld Hafliðadóttir, formaður stjórnar SVÍVS

 


 


Athugasemdir

Nýjast