Af hverju talar fólk ekki saman? – opið bréf til skólanefndar Akureyrarbæjar -

Misjöfn námsgeta og námsfærni nemenda í námsefni framhaldsskóla vakti okkur greinarhöfunda til umhugsunar. Við erum öll nemendur í fyrsta bekk í Menntaskólanum á Akureyri. Oft er talað um að stökkið milli grunn- og menntaskóla sé misstórt fyrir nemendur þar sem að þeir koma misvel undirbúnir úr grunnskóla. Okkur virðist sem sem vandinn felist aðalega í stærðfræðikennslu sem er eitt mikilvægasta fagið að okkar mati.

 Stökkið upp úr grunnskóla er að sjálfsögðu stórt og aldrei hægt að gera það eins fyrir alla þar sem að jú hver nemandi er einstakur út af fyrir sig. Það ætti þó að vera markmið grunnskólans að undirbúa nemendur sína það vel til þess að þeir lendi ekki í vandræðum strax á fyrsta ári framhaldsskólans.

 Við ræddum við samnemendur okkar og stærðfræðikennara bæði á grunn-og frammhaldsskólastigi þar sem við fengum að heyra hvað þeim finnst um stærðfræðikennslu í 10. bekk. Þegar við ræddum við samnemendur okkar í fyrsta bekk kom í ljós að margir voru á sama máli.

 Við fengum að heyra nokkur dæmi þar sem nemendur höfðu útskrifast úr grunnskóla með háa einkunn í stærðfræði án þess þó að leggja mikið á sig til að ná þeim einkunnum en féllu eða tæplega náðu á fyrstu önninni í framhaldsskóla þrátt fyrir að leggja hart að sér.

 Einn sagði frá því að það hefði verið erfitt að þurfa að byrja að læra heima fyrir alvöru til þess að fá góða einkunn eða hreinlega til að ná áfanganum, því í grunnskóla hafi hann ekki verið vanur að þurfa að læra mikið heima. Aðrir nemendur sem við töluðum við segja að stökkið hafi ekki verið eins stórt og þeir bjuggust við og þeim fannst þeir vera nógu vel undirbúnir fyrir framhaldsskóla.

Vantar námsefni

Við nánari skoðun kom í ljós að tveir skólar á Akureyri bera af varðandi kennslu. Nemendur úr þessum skólum eru ánægðir með kennsluna sem þeir fengu og hafa náð góðum tökum á stærðfræðináminu í vetur. Einn grunnskólakennarana sem við ræddum við benti okkur á að vandamálið væri einnig ný námskrá framhaldsskólanna.

Staðan í dag er þannig að eftir að áfanginn STÆ 102/103 var tekinn út af námskrá vantar inn námsefni til undirbúnings fyrir fyrsta bekk framhaldsskóla. Í raun mætti aðeins endurskoða þessar breytingar, þó að STÆ102 hafi að hluta til verið upprifjun úr stærðfræðinni í 10. bekk er hluti sem ekki er kenndur í grunnskóla og því erfitt fyrir nemendur að fara beint í bækur eins og STÆ 202/203 sem kenndar eru í fyrsta bekk. Einfaldast væri að leysa þennan vanda með því að færa stærðfræðina sem þarna vantar á niður í 10. bekk.

Ekkert samstarf

Af hverju er ekki gott og öflugt samstarf milli grunn- og framhaldsskólakennara? Vita grunnskólakennarar yfir höfuð hvað nemendur þurfa að kunna til þess að geta sinnt námi sínu í framhaldsskóla?

Þegar við ræddum við grunnskólakennara kom í ljós að enginn þeirra vissi nákvæmlega hvað nemendur þurfa að kunna fyrir framhaldsskóla og í því felst í raun vandamálið.

Það er nánast ekkert samstarf milli grunn- og framhaldsskólakennara en það er eitthvað sem ætti að reynast auðvelt að bæta í bæ eins og Akureyri. Það þarf að skapa formlegan vettvang grunn- og framhaldsskólakennara sem myndu funda tvisvar á vetri.

Flestir grunnskólakennarar sem við ræddum við voru sammála þessari hugmynd, þeir viðurkenndu að þeir væru ekki með það nægilega mikið á hreinu hvað nemendur á unglingastigi þyrftu að læra fyrir framhaldsskólanám en voru þó sammála því að það væri eitthvað sem auðvelt væri að bæta.

Tími til að tala saman

Okkur fannst mikilvægt að koma þessu á framfæri þar sem að þetta er vandamál sem verður að gera eitthvað í.

Okkar skoðun er sú að það þarf að endurskoða stærðfræðikennslu í 10. bekk og jafna hana þannig að allir grunnskólar séu á svipuðu stigi. Búseta ræður yfirleitt grunnskóla og því er ekki nema sanngjarnt að undirbúningurinn sé sá sami allsstaðar.

Orð eru til alls fyrst og við hvetjum skólanefnd Akureyrar og fræðslustjóra til að taka þetta verkefni og leiða samstarf skólastiga til heilla fyrir alla. Nú er tími til að tala saman.

 

Höfundar eru Heimir Pálsson,

Helena Rut Pétursdóttir, Jón Óskar

Andrésson og Kamilla Dóra Jónsdóttir,

nemendur í fyrsta bekk í

Menntaskólanum á Akureyri.

Nýjast