Af hverju?
Þegar ég tek þátt í samræðum í dag og þar er talað um einhvern sem ekki er á staðnum eru umræðurnar yfirleitt leiðilegar og meiðandi í garð hans. Við eigum það til að kvarta yfir börnunum, konunni eða karlinum. Oft svo mikið að við hættum að taka eftir því sjálf. Og enginn bendir á hið augljósa. Af hverju? Þegar þessi einstaklingur er svo á staðnum, breytist skyndilega hljóðið í okkur úr meiðandi í mærandi, og allir vilja honum vel.
Ef við stöndum frammi fyrir dauðanum í einhverjum aðstæðum, þá langar okkur mest af öllu að ná í makann sem fylgir okkur og segjast elska hann út af lífinu. Þú grætur á meðan í tilfinningalegri rússibanareið og sparar ekki fallegu orðin. Þá opnar þú þig. Það er ekki fyrr en í slíkum aðstæðum sem við erum tilbúin að tjá tilfinningar okkar. Af hverju?
En hvað ef þessu yrði nú snúið við. Getur þú grátið yfir því í lífandi lífu hversu heppinn þú ert að eiga þann sem er með þér og öllu því góða fólki sem í kringum þig er? Af hverju þarf einhver að deyja til að fá hrós og umhyggju frá öðrum? Við ættum að gera meira í að hrósa fólki sem er á lífi og er að standa sig vel í hlutverki sínu, svo það heyri það, meðtaki það, og getur tekið það með sér inn í lífið og orðið að enn betri manneskju.
Ég á son sem ég elska mest af öllu og er ótrúlega duglegur. Ég á foreldra sem báðir eru á lífi, og hafa verið gift í yfir fjörutíu ár sem ég elska endalaust. Ég á systir sem gengur í gegnum mjög erfiða líkamlega reynslu þessa dagana sem er hetjan mín. Ég á aðra eldri systir sem er mér stoð og stytta og mín fyrirmynd í lífinu. Ég á tvær sætar frænkur sem eru bestar í heimi. Ég á tvo mága sem mér þykir óendanlega vænt um og eru mér sem bræður. Stundum þarf að skrifa eitthvað fallegt frá hjartanu til einhvers sem er á lífi og getur notið þess.
Náungakærleikurinn er það eina sem kemur okkur í gegnum erfiða daga og erfið tímabil ævi okkar. Ég er ekki að ganga í gegnum erfið tímabil. Mig langaði bara að segja þetta. Mér líður vel og þykir vænt um og elska góða fókið sem er í kringum mig.
Vonandi gerir þú það líka.
Segðu þeim það.
Ásgeir Ólafsson