Ævisaga Káins komin á prent

Jón Hjaltason sagnfræðingur segir sögu Káins í nýútkominni bók sinni: Fæddur til að fækka tárum – Káinn – Ævi og ljóð. Bókin er 370 síður  og segir Jón sögu þessa fyrsta og eina kímniskálds Íslendinga,  „sem ódrukkinn var þurr á manninn en hreifur allra manna glaðværastur,“ segir Jón en bætir við:

„Það kemur því skemmtilega á óvart þegar rennur upp fyrir manni að Káinn bjó helming ævinnar við algert áfengisbann, nefnilega í Norður-Dakóta, þar sem hann var vinnumaður Önnu Geir og seinna sonar hennar til æviloka, Kristjáns Geir. Bannið braut hann vitaskuld margoft enda sagði hann sjálfur:

Segi ég glaður sannleik þannsem frá skaða ver mig: Að sjá mig aðeins ófullanenginn maður sér mig.

Brennivínið kom honum líka klandur við yfirvöld. Hann var kallaður fyrir dómara út af meintu áfengislagabroti en gerði auðvitað grín að öllu saman og sendi prestinum sem kærði þessa sneið:

Og kúnstin var nú: Hvor þar reyndist mestur, og hvort ég gæti logið meira en prestur.

Jón Hjaltason

Tvö ár í smíðum

Jón segir það hafa tekið tvö ár að gera bókina. Spurður um hvað fékk hann til að ráðast í þetta verkefni segir hann svarið ekkert eitt. „Ég get nefnt að Káinn var Akureyringur og Eyfirðingur, það örvaði mig til dáða. Líka Káins-ráðstefnan sem hér var haldin fyrir nokkru og lánaðist afar vel að mínu mati. Fyrst og fremst voru það þó vísurnar hans og ljóðin sem héldu mér við efnið. Kímnin í þeim er einstæð eins og þetta dæmi er um:

En undarlegast atvik samt ég tel að Íslendingur skyldi frjósa í hel.

Góðlátlegt háðið er hárfínt:

Alltaf heldur fram mér fer– fyrnist bernsku slaður –eitt ég seldi Kviðlings kver, keypti enskur maður.

Og þegar Káinn slær á viðkvæma strengi eru ekki mörg skáld sem taka honum fram í einfaldleik sínum og einlægni:

Sjáðu þetta sjúka barn! Svitinn döggvar brána. Láttu, drottinn líknargjarn, litla kroppnum skána.

-Þú styðst mikið við vísur Káins, ekki satt?

„Jú, þær eru mikilvæg heimild um líf hans og ég legg mikið upp úr því að tengja þær við samtíma Káins. Hann lét fátt fram hjá sér fara og lagði jafnan eitthvað skondið til málanna þegar stríðlyndir landar tókust á. Þannig gafst mér einstakt sjónarhorn vil ég segja á merkilega sögu Vestur-Íslendinga. Sögu sem ég segi af sjónarhóli Káins sem hafði svo gaman af því að skjóta á landa sína, stundum tvíræðum vísum sem þeir vissu ekki alveg hvort fólst í háð eða gaman. Fyrir vikið voru Vestur-Íslendingar lengi tvístígandi frammi fyrir snilligáfu Káins og vissu ekki hvort átti að hampa honum eða þegja í hel.

-En eiga vísur og ljóð Káins eitthvert erindi við okkur í dag?

"Já, heldur betur myndi ég segja. Og kannski aldrei eins og einmitt um þessar mundir. Káinn var nefnilega þrátt fyrir allan gáskann þungur á bárunni. Hann átti skuggabaldur í sálinni sem hann hélt í skefjum með gamansemi. En það er einmitt húmor sem við þurfum á að halda í baráttu okkar við pödduna vondu sem hótar ekki aðeins líkamlegri heilsu okkar heldur einnig hinni andlegu. Og þá er gott að eiga Káinn,“ segir Jón Hjaltason.

 

 

 


Nýjast