Ævintýragarðurinn við Oddeyrargötu 17 opinn

Hreinn Halldórsson alþýðulistamaður ásmat  Helga magra    Mynd MÞÞ
Hreinn Halldórsson alþýðulistamaður ásmat Helga magra Mynd MÞÞ

„Það er draumur hvers manns að skapa og miðla með öðrum. Með það í huga hef ég á síðustu árum skapað hin ýmsu verk sem ég staðset svo í garðinum við heimili mitt,“ segir Hreinn Halldórsson alþýðulistamaður, Oddeyrargötu 17 á Akureyri en þar hefur hann komið upp sannkölluðum Ævintýragarði.

 „Ég hef fundið fyrir áhuga ferðamanna og ekki síður Íslendinga á að skoða verkin mín og varð það til þess að á síðasta sumri opnaði ég aðgang að garðinum mínum fyrir almenning. Opnunin á garðinum gekk vel og var umgengni gesta til fyrirmyndar,“ segir hann og hefur því opnað garðinn að nýju fyrir gestum og gangandi. Ævintýragarðurinn verður opin alla daga í sumar frá kl. 10 til 20. Aðgangur er ókeypis eins og ávallt hefur verið og myndatökur leyfðar. Við flest verkin en stuttur texti bæði á íslensku og ensku með nafni verksins og úr hvaða ævintýri það er tekið.

 Garðurinn er einkagalleríið Hreins, lifandi undir berum himni. Þar er lofthæðin endalaus og lýsingin síbreytileg. „Ég get fullyrt að það eru ekki mörg gallerí á Íslandi þar sem búast má við rigningu eða jafnvel snjókomu og roki þegar gengið er um galleríið og verkin skoðuð. Oftast er þó glampandi sól, logn og þægilegur útihiti eins og Akureyri er þekkt fyrir!“

 Flest verkanna má rekja til íslenskra bókmennta og ævintýra en síðustu ár hefur hugur Hreins og listsköpun snúið að sígildum ævintýrum sem honum eru minnisstæð frá bernskuárum sínum.  Verkin eru heimakær og vilja ekki yfirgefa garðinn en þó hafa sum þeirra sýnt sig á á Handverkshátíðinni í Eyjafjarðarsveit og í sýningarrými Amtsbókasafnsins á Akureyri.

 Í sumar hafa bæst við fimm nettar dömur í þjóðlegum fatnaði. Systurnar frá Stapa kalla þær sig, en samkvæmt upplýsingum voru þær þrjár en Hreinn bætti aðeins í og gerði fimm styttur. „Þær líta frekar fínt á sig og ætla að halda sig í sumar inn í gróðurhúsinu en eru þó alltaf til í að spjalla við gesti.“

 

Systurnar frá Stapa   Mynd Facebooksíða Hreins


Athugasemdir

Nýjast