Ættarnöfn á Íslandi: Átök um þjóðararf og ímyndir

Mynd/ Háskólinn á Akureyri
Mynd/ Háskólinn á Akureyri

„Ég er búinn að vinna að þessari rannsókn um langt skeið. Það er því einstaklega ánægjulegt að sjá verkið koma út á bók,“ segir Páll Björnsson sagnfræðingur og prófessor við Háskólann á Akureyri. Bókin nefnist Ættarnöfn á Íslandi: Átök um þjóðararf og ímyndir og er á fjórða hundrað blaðsíður. Sögufélag gefur bókina út en bækur þess hafa unnið til fjölda verðlauna á liðnum árum. „Ég gaf út bókina Jón forseti allur? Táknmyndir þjóðhetju frá andláti til samtíðar einmitt hjá því forlagi árið 2011 og hún vann til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.“ Sagt er frá þessu á heimasíðu Háskólans á Akureyri

Saga átaka um þjóðararf og ímyndir

Þessi nýja bók fjallar um deilurnar um ættarnöfn hér á landi sem hafa staðið yfir nánast sleitulaust frá því um miðbik 19. aldar milli andstæðinga og formælenda ættarnafnasiðarins. „Meginmarkmið mitt er að greina hina opinberu umræðu, þ.e. hvaða rök voru notuð, bæði með og á móti, en á köflum urðu deilurnar harðar, hvort sem var í þingsölum eða fjölmiðlum.“ Um leið er rætt um áhugaverðar kúvendingar sem hafa orðið í þessum málaflokki, t.d. árið 1913 þegar Alþingi samþykkti lög sem heimiluðu fólki að taka upp ný ættarnöfn en tólf árum síðar voru aftur á móti sett lög sem bönnuðu upptöku nýrra ættarnafna.

Nöfn nýrra ríkisborgara

Leitað er svara við því hvernig deilurnar tengjast hinni sögulegu framvindu, atriðum eins og þéttbýlismyndun, uppgangi þjóðernishreyfinga, sífellt nánari tengslum Íslendinga við umheiminn og fjölgun innflytjenda. Staða nýrra ríkisborgara er rædd en á tímabili voru gerðar kröfur um að þeir tækju upp íslensk nöfn. Þegar heimsfrægur tónlistarmaður sótti um ríkisborgararétt hér á landi leiddi það á hinn bóginn til stefnubreytingar.

Tengingar við kynþáttahyggjuna

Einnig er sýnt fram á að sú regla að raða Íslendingum samkvæmt skírnarnafni þeirra í opinberum skrám er sprottin upp úr deilunum um ættarnöfn á fyrstu áratugum 20. aldar. „Í bókinni kemur annars vel í ljós hversu víða þessar deilur teygðu anga sína en þær náðu jafnvel inn á lendur kynþáttahyggjunnar.“ Auk þess endurspeglast breytingar á stöðu kvenna í verkinu, bæði í umræðunni og löggjöfinni á hverjum tíma.

 


Athugasemdir

Nýjast