25. mars, 2007 - 12:35
Fréttir
Sveinn Jónsson, athafnamaður á Árskógsströnd, hefur ekki lagt á hilluna þá hugmynd sína að koma upp kláfferju í Hlíðarfjalli sem myndi ferja fólk frá skíðahótelinu og upp á brún Hlíðarfjalls. Sveinn segist hafa leitað til sterka fjárfestingafélaga sem starfa mikið erlendis um að koma að þessu verkefni. Heildarkostnaður er áætlaður um 800 milljónir króna. „Það hafa ekki komið nein jákvæð svör enn sem komið er en menn eru að velta þessu fyrir sér. Það er allt fyrir hendi, aðstæðurnar í fjallinu, snjóflóðahættumat, deiliskipulag og það vantar ekkert annað en fjármagnið til að hrinda þessu í framkvæmd," segir Sveinn. Fyrir liggur fjármagn upp á 100 til 200 milljónir króna. „Ég ætlaði ekki að slá út fyrir þessu einn og sér en freista þess að fá í þetta góða menn með mér. Ég er nú nokkuð vanur því að fást við að gera fjárhagsáætlanir og tel mig kunna það og þetta dæmi á alveg að ganga upp. Það liggja meira að segja fyrir plön um hvernig hægt yrði að nýta mannvirkin á sumrin eins og með gerð hjólabrauta, bobsleðabrauta og þess háttar. Það vantar ekkert nema fjármagnið en Eyfirðingar eru lélegir að fást við nýjungar," sagði Sveinn.