Ætlar að fleyta sér yfir 200 metra langt vatn á jeppa sínum

Um helgina mun torfærukappinn Gísli Gunnar Jónsson, félagi í Bílaklúbbi Akureyrar, reyna að fleyta sér yfir 200 metra langt og 80 metra djúpt vatn á jeppa sínum. „Þetta er sent út í beinni og það má ekkert klikka," segir torfærukappinn Gísli Gunnar Jónsson. Hann kemur fram í einum vinsælasta sjónvarpsþætti Evrópu, Wetten Dass, á þýsku sjónvarpsstöðinni ZDF á laugardag.  

Rétt áður en hann leggur í svaðilförina geta áhorfendur veðjað um hvort honum takist ætlunarverkið eður ei. Gísli býst við því að bruna örugglega yfir vatnið á jeppanum, sem áður hét Kókómjólkin, þó svo að vegalengdin sé sú lengsta sem hann hafi farið til þessa. „Nema það verði skyndileg bilun, þá sekkur hann bara. En það er settur neyðarkútur á hann þannig að hann sökkvi ekki niður og dragi mann til kölska," segir Gísli á vef Bílaklúbbs Akureyrar.

Eftir áhættuatriðið verður bílinn dreginn inn á sjónvarpspall þar sem Gísli verður tekinn tali. Wetten Dass hefur verið á dagskrá ZDF í áratugi og áhorfið á hann mun vera það næstmesta í Evrópu á eftir Eurovision-keppninni, eða sem nemur yfir þrjátíu milljónum áhorfenda. „Ég hef aldrei prófað neitt í líkingu við þetta. Þetta er náttúrulega risabatterí," segir Gísli, sem er margfaldur Íslandsmeistari í torfæruakstri og fyrrverandi heimsmeistari.

Gísli kom fyrir nokkrum árum fram í þættinum Top Gear þar sem hann keyrði einmitt yfir vatn. „Það var heilmikil umfjöllun, þeir sáu þetta og höfðu samband við mig," segir hann um forsvarsmenn Wetten Dass. Búið er að smíða nýjan mótor fyrir jeppann vegna þáttarins í von um að hann haldi út alla tvö hundruð metrana í vatninu. „Það er þverhnípt niður og maður verður bara að vera snöggur," segir Gísli ennfremur á vef BA.

Nýjast