Ætlaðri sameiningu tveggja leikskóla vísað til heildarendurskoðunar á stjórnkerfi skóla

Skólanefnd Akureyrar samþykkti á fundi sínum í vikunni að vísa ætlaðri sameiningu leikskólanna Pálmholts og Flúða til heildarendurskoðunar á stjórnkerfi skóla Akureyrarbæjar sem liggur fyrir að farið verði í. Jafnframt viðurkennir skólanefnd að málsmeðferð á erindi þar sem óskað var eftir lagfæringum á salernisaðstöðu vegna aðstöðuleysis einnar deildar Pálmholts, hafi verið ábótavant.  

Varðandi salernisaðstöðu í leikskólanum Pálmholti samþykkti skólanefnd að fela fræðslustjóra og leikskólafulltrúa að skoða lausn á því með stjórnendum leikskólans Pálmholts og leggja tillögu fyrir skólanefnd. Skólanefnd leggur áherslu á að lausn málsins hafi ekki í för með sér aukinn rekstrarkostnað.

Á fundi skólanefndar var tekið fyrir erindi dags. 7. apríl 2010 frá foreldrafélagi og foreldraráði Pálmholts og erindi dags. 13. apríl 2010 frá starfsmönnum leikskólanna Flúða og Pálmholts, þar sem málsmeðferð skólanefndar á erindi foreldrafélags og foreldraráðs Pálmholts frá 4. febrúar sl. er mótmælt. Í erindinu frá 4. febrúar var óskað eftir lagfæringum á salernisaðstöðu vegna aðstöðuleysis einnar deildar skólans, Regnboga. Þá var í erindinu bent á að fjölnotarými til hreyfileikja, þjálfunar, listsköpunar og annarra viðburða teljist til lágmarksaðstöðu í leikskóla samkvæmt reglugerð um starfsumhverfi leikskóla. Kemur fram í erindinu að foreldrar telji að úr þessu þurfi að leysa ásamt starfsmannaaðstöðu. Er bent á að í náinni framtíð þurfi því að ráðast í frekari úrbætur eða viðbyggingu við leikskólann eigi húsnæðið að standast núgildandi reglugerðir.
Skólanefnd bókaði um þetta mál á fundi sínum þann 29. mars sl. að hún teldi að leysa mætti málið með því að sameina leikskólana Pálmholt og Flúðir og fól fræðslustjóra að vinna að því.

Nýjast