„Ætla að vera besta útgáfan af sjálfum mér“

Friðgeir Bergsteinsson. Mynd/aðsend
Friðgeir Bergsteinsson. Mynd/aðsend

Friðgeir Bergsteinsson er Þingeyingum að góðu kunnur og oft verið kallaður umboðsmaður Húsavíkur, já eða hreinlega sendiherra. Enda er Friðgeir með mest áberandi Húsavíkingum og er gjarna fyrsti maður til aðstoðar ef þörf og góð málefni reka á fjörurnar.

Vikublaðið bað Friðgeir um að líta yfir árið sem var að líða en eitt af því sem hann segir hafa staðið upp úr er að vinna í frábærum félagskap dagsdaglega. „Ég var góðum vinum innan handar í ýmsum verkefnum. Ef ég á að nefna eitthvað, fannst mér virkilega skemmtilegt að hjálpa til með ná í flóttafólk sem  kom frá Úkraínu. Ég hjálpaði til með afmælistónleika Siggu Beinteins sem haldnir voru 7.maí sl. Fór til Englands - til að styðja þétt við bakið á stelpunum okkar á EM og vera góður við sjálfan mig með hreyfingu og styrkja mig,“ segir Friðgeir og bætir við að hann hlakki til þess sem 2023 hefur fram að færa.  

„Ég ætla að halda áfram að vera besta útgáfan af sjálfum mér. Hugsa vel um mig. Hugsa vel um fólkið kringum mig, bæði fjölskylda og vini og óska eftir að þau verða með góða heilsu á árinu og gefa mér meiri tíma til að vera með þeim,“ segir Friðgeir með jákvæðni og bjartsýni í farteskinu. 


Athugasemdir

Nýjast