Æfingar hafnar á Fló á skinni hjá Leikfélagi Akureyrar

Æfingar eru komnar á fullt hjá Leikfélagi Akureyrar á farsanum vinsæla Fló á skinni. Farsinn fagnar 100 ára afmæli á árinu en hann birtist nú í nýrri leikgerð sem Gísli Rúnar Jónsson gerði fyrir LA. Þrettán leikarar taka þátt í sýningunni, þar á meðal leikarinn ástsæli, Randver Þorláksson. María Sigurðardóttir leikstýrir verkinu en hún stýrði m.a. vinsælustu sýningu Leikfélags Reykjavíkur frá upphafi, Sex í sveit. Guðjón Davíð Karlsson fetar í fótspor Gísla Halldórssonar sem margir muna eftir úr upprunalegri uppfærslu verksins hérlendis. Óvitar víkja af sviði Samkomuhússins fyrir troðfullu húsi til að rýma til fyrir Fló á skinni. Er það rétt að í annálaðri fegurð Eyjafjarðar sé sveitasetrið Sveinbjarnargreiði griðastaður elskenda á laun? Hefur Saga Ringsted ástæðu til að gruna eiginmanninn um græsku eða hefur hún sjálf eitthvað að fela? Hver var konan sem bað forstjórann um blint stefnumót? Hélt Elli við konu Jóhannesar eða hélt hann bara upp á hana? Er Helmut Edelstein manískur kvennamaður eða bara þýskur ferðamaður? Er afbrýðisemi Miroslav á rökum reist? Og er ást Tínu sönn? Ást og afbrýðisemi, misskilningur á misskilning ofan og allt í dásamlegri steik. Fló á skinni er einn besti og eitraðasti gamanleikur allra tíma. Nú eru 100 ár frá því að þessi óborganlegi farsi Feydeau kitlaði fyrst hláturtaugar áhorfenda og hóf sannkallaða sigurför um heiminn.
Leikarar eru Guðjón Davíð Karlsson, Jóhannes Haukur Jóhannesson, Hallgrímur Ólafsson, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Viktor Már Bjarnason, Atli Þór Albertsson, Linda Ásgeirsdóttir, Þráinn Karlsson, Margrét Helga Jóhannsdóttir, Tinna Lind Gunnarsdóttir,  Randver Þorláksson, Valdimar Örn Flygering og Aðalsteinn Bergdal. 

Nýjast