Barnakór Akureyrarkirkju syngur, álfastúlkurnar tvær úr jólaleikriti Leikfélags Akureyrar, þær Signý og Stúfsa fara
á svið og syngja og sprella. Hermann Jón Tómasson bæjarstjóri flytur stutt ávarp. Eik Haraldsdóttir tendrar ljósin á
trénu. Jólasveinarnir koma til byggða í hestvagni, syngja fyrir börnin og gefa þeim mandarínur. Á sama tíma og
jólatréð lýsir, mun hjartað í Vaðlaheiðinni slá á ný.
Jólakötturinn sem gerður er af starfsmönnum Fjölsmiðjunnar á Akureyri undir handleiðslu Aðalheiðar Eysteinsdóttur listakonu mun koma sér
makindalega fyrir á torginu og horfa lymskulega til mannfjöldans. Veðurspáin gerir ráð fyrir þó nokkru frosti á laugardaginn og því
er gott að vita af glöggi og piparkökum sem Norræna félagið á Akureyri mun bjóða upp á á torginu. Einnig verður hægt
að ylja sér í Kirkjubæ við Ráðhústorg þar sem boðið verður upp á kakó og kleinur.
Þetta er í þriðja sinn sem Akureyrarstofa stendur að Aðventuævintýri og er dagskrá þess að finna á vefnum www.visitakureyri.is.
Aðventan á Akureyri verður ljúf og afslöppuð með fjölda viðburða sem gera þennan árstíma enn yndislegri en ella.
Jólatónleikar, tónleikar þar sem nýtt íslenskt efni er kynnt, upplestur úr nýútkomnum bókum, markaðir víða um
bæinn þar sem seldir eru listmunir, handverk og jólaföndur, markaður með ilmandi og bragðgóðri matvöru gerð heima í héraði,
jólastemmning í Laufabrauðssetrinu þar sem mynstrað munngæti er í aðalhlutverki, jólaleikritið Lykillinn að jólunum sem
Leikfélag Akureyrar sýnir og er fyrir börn á öllum aldri, opnanir listsýninga og jólin "sungin inn" af kirkjukórum bæjarins.