Að losna úr læðingi!

Þorgrímur Þráinsson.
Þorgrímur Þráinsson.

Margir hafa haldið aftur af sér árum, jafnvel áratugum saman. Hin ósýnlega ánauð grandar draumum okkar og hrekur markmiðin á brott. Hún fyllir okkur neikvæðni og hlekkjar okkur við meðalmennskuna. Hin ósýnlega ánauð er kölluð ÓTTI en það ógurlega skrímsli hefur traðkað á vonum okkar og draumum árum saman. Skrímslið hefur haldið fjölda fólks í gíslingu. Undiralda óttans eru áhyggjur og sektarkennd sem hafa lamandi áhrif á frumkvæði og sköpunarkraft.

Í einhverjum tilvikum hefur óttinn og fylgifiskar hans stjórnað lífi okkar. Að lifa í ótta er ekki að lifa – heldur að vera til. Óttinn sýgur úr okkur gleðina og hamingjuna, skerðir gáfurnar, hlekkjar hæfileikana, hlær að draumsýn okkar. Það sem hrekur óttann á brott og færir okkur nær hamingju, gleði og fullnægju er MEÐVITUND, að lifa í núinu. Hver er ástæða óttans sem hefur grasserað í okkur? Kannski var honum plantað ómeðvitað af þeim sem ólu okkur upp, elskuðu okkur mest og sinntu af alúð. Samt töldu þau sig vera að gera sitt besta. Eftir að hafa tamið sér fulla meðvitund er mikilvægt að kveikja á trúnni.

Við verðum að trúa á okkur sjálf og gersemana innra með okkar sem bíða eftir að verða uppgötvaðar. Við búum yfir hæfileikum sem enginn annar í veröldinni býr yfir. Hvað gerist ef við kveikjum aldrei elda innra með okkur og nýtum ekki hæfileikana til fullnustu? Við eigum að búast við því besta í lífinu. Það gerist þegar við leysum mikilfengleikann úr læðingi. Hann snýst ekki um peninga. Mikilfengleikinn er það að nýta okkar einstöku verðmæti, deila þeim og njóta þess að gefa. Auðsæld, gleði og hamingja munu leysast úr læðingi. Við eigum glæsta, dásamlega framtíð sem tekur okkur opnum örmum ef við erum meðvituð um að augnablikið skiptir mestu máli.

En dásemdin kemst ekki til okkar ef við óttumst og reisum háa múra af áhyggjum. Rísum upp og gerum kröfur til mikilfengleika okkar. Hann er engu líkur. Það sem við viljum, vill okkur. Fyrst þurfum við að verða það sem við óskum eftir. Þá fyrst verðum við óskin og dyr taka að opnast. Fáir hafa lært að hrósa sjálfum sér,þykja vænt um sig, heiðra sjálfan sig og fagna sjálfum sér. Í dag er frábær dagur til að hefjast handa.

-Þorgrímur Þráinsson

Nýjast