Að ljá rödd

- frítími barna í tæknivæddum heimi

Andri Hjörvar Albertsson skrifar

Ég er fæddur árið 1980 - ekkert svo ýkja langt síðan að mínu mati - en fyrir alveg langa löngu að mati margra annarra.  Hvað um það, fyrir langa löngu þegar ég var að alast upp, sækja grunnskólann, stunda íþróttir og þetta venjulega, þá var aldrei langt í leikina og glensið með jafnöldrum mínum.  Það var alltaf eitthvað um að vera í einhverju hverfi, einhverstaðar í bænum.  Það var sparkað í fótbolta langt fram á nótt, eltingaleikir (með ýmsum vafasömum afbrigðum) voru skipulagðir og stundaðir á sérútvöldum svæðum, einhver prakkarastrik voru framin og svo mætti lengi telja. 

Er þetta með öllu horfið í dag spyr ég?  Persónulega finnst mér ég sjá mjög lítið af krökkum úti á götum, í görðum eða á lóðum að leika sér.  Ef engin er úti að leika þá hljóta allir að vera inni að leika. Sem sagt, í 90 fermertra íbúð þá er fótbolti á ganginum þar sem mamma fer með dómaravaldið (sífellt að flauta leikinn af og segja að að gangurinn sé ekki fótboltavöllur... hvaðan fékk hún sitt dómaraskírteini eiginlega?), eltingarleikur með aðeins einu afbrigði: ekki brjóta neitt, og að lokum prakkarastrik af mjög svo skornum skammti því mamma gamla kann öll trixin í bókinni.

Svona held ég að krakkar leiki ekki í dag , nema þá í einstaka tilvikum.  Í dag eru krakkar orðnir svo ótengdir náttúrunni og tæknivæddir að þeir þurfa ekki út úr herberginu sínu til að finna sér eitthvað að gera.  Mamma gamla þarf því ekki að hafa neinar áhyggjum af Jean Charles de Castelbajac lampanum sínum sem stendur spengilegur á miðjum ganginum.  Þetta með tæknivæðinguna má lesa svart á hvítu (í tölfræðilegu samhengi) í rannsókninni Ungt fólk frá árinu 2011.  Í rannsókninni, sem gerð var á 5., 6. og 7. bekk í grunnskólum landsins, kemur til dæmis fram að 82,9% stráka í 7. bekk eiga sjálfir sjónvarp, 74,2% eiga sjálfir DVD spilara, 91,6% eiga sjálfir leikjatölvu og 91,8% eiga sjálfir GSM síma. Þarna blasir blákaldur, tæknivæddur veruleikinn við. Er það furða að ungmenni við leik utandyra sé svo sjalfgæf sjón í dag ? 

Auðvitað held ég því ekki fram að vegna þessarar gífurlegu tækjaeignar séu krakkarnir eingöngu inni hjá sér eftir skóla og langt fram eftir kvöldi.  Og eins áhugavert og það er, þá ætla ég ekki að skrifa um hversu miklum tíma krakkarnir eyða við tækin sín.  Það er efni í aðra grein.  Ég er aðallega að benda á þessar gífurlegu háu prósentutölur varðandi tækjaeign krakkanna og velti um leið fyrir mér spurningunni um nauðsyn þeirra og tilkomu þeirra inná heimilin.  Af hverju eiga svona margir krakkar svona mikið af tækjum?  Er þetta talið eðlilegt eingöngu vegna þess að það er þrýstingur frá samfélaginu sem segir að svo sé?  Er þetta bara þróunin í heiminum?  Eru það kannski ástæður og afsakanir foreldra sem liggja að baki þessum tækjakaupum?

Höfundur er nemandi í Háskóla Íslands.

              

              

 

Nýjast