Að líða vel í eigin skinni

Rannveig Elíasdóttir.
Rannveig Elíasdóttir.

Til að börn og unglingar geti tekið þátt í skóla og tómstundum og náð þeim markmiðum eða árangri sem þau vilja og gerðar eru kröfur um, er algjört lykilatriði að þeim líði vel í líkama og sál. Það að vera heilbrigður er ekki bara að vera laus við alla líkamlega kvilla, enda spilar þetta allt saman. Ef okkur líður illa á sálinni getur það komið út í verkjum í líkamanum og ef við erum alltaf með verki eða óþægindi í líkamanum getur okkur liðið illa á sálinni.

Margt hefur áhrif á það hvernig börnum/unglingum líður svo sem heimilisaðstæður, félagsleg staða, námsleg staða, undirliggjandi geð/hegðunarraskanir, áföll, líkamleg líðan, næring, hvíld, hreyfing og margt fleira. Það er mikilvægt að finna þau börn sem glíma við vanlíðan og veita þeim aðstoð sem fyrst. Erfiðleikar í barnæsku geta oft undið upp á sig og orðið að enn stærra vandamáli á fullorðinsárum ef ekkert er að gert.

Við þurfum að tala við börnin okkar um tilfinningar, spyrja þau hvernig þeim líður, hvernig dagurinn í dag var o.s.frv. Kenna þeim að það má og á að tala um það hvernig okkur líður og að maður getur fengið aðstoð ef maður ræður ekki við erfiðar tilfinningar. Erfiðar tilfinningar þurfa samt alls ekki að vera sjúklegar og oft er nóg að fá aðstoð frá foreldri, kennara og jafnvel góðum vini til að vinna úr erfiðum tilfinningum, kenna þeim að hugsa hlutina upp á nýtt. En ef vanlíðan er viðvarandi er að sjálfsögðu ástæða til að leita til frekari fagaðila.

Með því að efla sjálfsmynd, sjálfstraust og þrautseigju barna verða þau sterkari einstaklingar sem geta vonandi staðið af sér það mótlæti sem lífið hefur upp á að bjóða. Með hvatningu og verðskulduðu hrósi styrkjum við sjálfsmynd barnanna okkar. Öll börn þurfa líka umhyggju, öryggi og aga til að líða vel.

-Rannveig Elíasdóttir, hjúkrunarfræðingur í heilsuvernd grunnskólabarna


Nýjast