Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu rúllar af stað um helgina en heil umferð fer fram á laugardaginn kemur kl. 16:00. Þór/KA hefur leik á heimavelli gegn liði ÍBV.
Íslandsmeisturum Vals er spáð titlinum í ár af forráðarmönnum félaganna í deildinni og kemur sú spá lítið á óvart. Þór/KA og Stjarnan munu hins vegar bítast um annað sætið samkvæmt spánni og Breiðablik er spáð fjórða sæti.
Þór/KA hafnaði í öðru sæti í fyrra og er það er besti árangur liðsins í sögu félagsins. Um leið tryggði Þór/KA sér sæti í Meistaradeild Evrópu í haust í fyrsta sinn. Viðar Sigurjónsson tók við liði Þórs/KA undir lok síðasta tímabils af Dragan Stojanovic og verður áfram við stjórnvölinn í sumar. Hann á von á því að deildin í ár verði mun jafnari en raunin hefur verið síðastliðin sumur.
„Ég held að liðin verði að reita stig hvort af öðru í meiri mæli en áður. Deildin verður þar af leiðandi mun jafnari og jafnframt skemmtilegri,” segir Viðar. Hann segir spá forráðamanna liðanna koma lítið á óvart.
„Ég held að þessi spá segi mikið um þann styrkleika sem fótboltaheimurinn álítur að sé kominn í okkar lið. Það setur bara á okkur pressu að spá okkur svona ofarlega og hvetur okkur til þess að standa okkur vel,“ segir Viðar.
Nánar er rætt við Viðar um Pepsi-deildina og fyrsta leikinn gegn ÍBV í Vikudegi í dag.