95% samþykkja verkfall
Verkfallsaðgerðir rúmlega 10 þúsund félagsmanna Starfsgreinasambands Íslands (SGS) hefjast í næstu viku. Þar á meðal eru 7.300 félagsmenn Einingar-Iðju, fjölmennasta stéttarfélagsins í Eyjafirði. Félagsmenn SGS samþykktu aðgerðirnar með yfirgnæfandi meirihluta, eða 94,6%, í atkvæðagreiðslu sem staðið hafði í eina viku.
Kjörsókn var 50,4% en þátttaka í kosningunni jókst eftir því sem leið á vikuna samfara mikilli umfjöllun og umræðu sem varð um kjaramál síðustu daga í þjóðfélaginu. Kjörsóknin var umtalsvert meiri en væntingar verkalýðsfélaganna höfðu staðið til. Verkfall félagsmanna SGS hefst því fimmtudaginn 30. apríl og stendur fyrst um sinn yfir í hálfan sólarhring, frá hádegi til miðnættis. Eftir það taka við regluleg sólarhringsverkföll þar til ótímabundið verkfall hefst 26. maí. Ljóst er að verkföllin munu hafa mikil áhrif á fjölda vinnustaða um land allt. Kosið var í 16 aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins um tvo aðalkjarasamninga, niðurstöður skipt eftir aðildarfélögum og samningum má sjá á vef Starfsgreinasambandsins www.sgs.is.
Við fögnum þessari kjörsókn. Verkföll eru alltaf síðasta úrræðið og við vonum að það náist að semja fyrir 30. Apríl, segir Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins og Einingar-Iðju. Þó getum við ekki verið of vongóð miðað við það sem komið hefur frá fulltrúum Samtaka atvinnulífsins. Þá skiptir máli að niðurstaðan í kosningunni var skýr, félagsmenn eru tilbúnir í verkfall. Kjörsókn upp á 50,4% þar sem 95% lýsa einni afstöðu, er mjög hátt hlutfall. Sérstaklega þegar litið er til þess um hversu fjölbreyttan hóp fólks er að ræða, t.a.m. farandverkafólk, skólafólk og fólk í hlutastörfum. Kjörsóknin var einnig meiri á þeim stöðum þar sem fiskvinnsla er undirstöðugrein og kemur það okkur síst á óvart, enda er óréttlætið í því hvernig gæðunum er skipt alveg hrópandi í sjávarútveginum, segir Björn.