03. maí, 2007 - 13:50
Fréttir
Í skoðanakönnun sem fyrirtækið Capacent hefur unnið fyrir Greiða leið ehf. sem stendur að gerð jarðganga í Eyjafirði kemur fram að 92% þeirra sem tóku afstöðu telja mikilvægt að göngin verði gerð. Könnunin var gerð meðal íbúa í Eyjafirði og Þingeyjarsýslu og var úrtakið 2000 manns á aldrinum 17-75 ára. Alls sögðust 76,3% þeirra sem tóku afstöðu telja gerð ganganna mjög mikilvæga framkvæmd og 15,4% töldu þau frekar mikilvæg á meðan aðeins 8% töldu þau frekar lítilvæg, mjög lítilvæg eða hvorki né. Eins og kunnugt er á að borga göngin í einkaframkvæmd og verða þau fjármögnuð með sérstakri fjármögnun eins og vegatolli. Greið leið hefur stefnt að því að framkvæmdir gætu hafist á yfirstandandi ári en ljóst er að þar sem 300 milljóna króna framlag ríkisins kemur ekki til greiðslu fyrr en á árunum 2008-2010 takist það ekki að hefja framkvæmdir á árinu.