Misjöfn verða morgunverkin
Í Laxdælu, einni áhrifamestu ástarsögu á íslensku, segir frá ástarþríhyrningnum Guðrúnu Ósvífursdóttur, Kjartani Ólafssyni og Bolla Þorleikssyni. Guðrún var frá Laugum í Sælingsdal, kvenna vænst á Íslandi, bæði að ásjónu og vitsmunum og kurteis svo að í þann tíma þóttu allt barnavípur er aðrar konur höfðu í skarti hjá henni, allra kvenna best orði farin og örlynd kona.
Kjartan var frá Hjarðarholti, allra manna fríðastur, manna best eygður og ljóslitaður, mikið hár og fagurt sem silki og féll með lokkum og sterkur eftir því sem verið hafði Egill, móðurfaðir hans. Tvímenningur við Kjartan og fósturbróðir var Bolli Þorleiksson. Honum er ekki lýst í sögunni, en Kjartan fór hvergi þess er eigi fylgdi Bolli honum. Kjartan og Guðrún felldu hugi saman og var það allra manna mál að með þeim væri jafnræði.
Kjartan fór til Noregs. Fylgdi Bolli honum. Kjartan komst í vinfengi við Ólaf konungs Tryggvason, lét skírast og vildi konungur gefa honum systur sína og fá hann til þess að vera með sér. Vegna deilna konungs og Íslendinga var Kjartani meinað að fara til Íslands - en Bolli fékk fararleyfi. Með brögðum fékk Bolli Guðrúnar, en ekki var margt í samförum þeirra Bolla af Guðrúnar hendi, eins og segir í sögunni. Þegar Kjartan kom til Íslands frétti hann af hjónabandi Guðrúnar og Bolla. Gekk Kjartan þá að eiga Hrefnu Ásgeirsdóttur og tókust góðar ástir með þeim.
Deilur urðu með Hjarðhyltingum og Laugamönnum. Að undirlagi Guðrúnar fóru fimm bræður hennar, Ósvífurssynir, að Kjartani ásamt þremur mönnum öðrum og var Bolli hinn níundi. Tveir voru með Kjartani. Þegar Bolli sagði Guðrúnu frá víginu mælti hún: Misjöfn verða morgunverkin, eg hef spunnið tólf álna garn en þú hefur vegið Kjartan.
Þessi orð Guðrúnar eru varðveitt í ólíkum gerðum. Ólafur Halldórsson handritafræðingur skrifaði um Morgunverk Guðrúnar Ósvífursdóttur í ritgerðarsafni sínu Grettisfærslu. Bendir hann á að í aðalhandriti sögunnar, Möðruvallabók frá fyrra hluta 14. aldar, stendur: Mikil verða hermdar verk, ... Í eftirriti glataðs skinnhandrits, Vatnshyrnu, frá því um 1300, stendur: Mikil verða hernaðarverkin, eg hef spunnið xii álna garn, en þú hefur vegið Kjartan. Bolli svarar: Þó mætti mér það óhapp seint úr hug ganga, þótt þú minntir mig ekki á það.
Tilgáta Ólafs Halldórssonar er að skrifari hafi mislesið orð Vatnshyrnu: her uadauerkin - og skrifað hernaðarverkin í stað: hér váðaverkin. Getur Ólafur þess til, að Guðrún hafi frétt af treglegri framgöngu Bolla og því brugðið honum um að vígið hafi verið voðaverk - þ.e.a.s. fyrir slysni en ekki ásetning, sbr. orðið voðaskot sem merkir slysaskot. Þetta er snjöll tilgáta hjá Ólafi Halldórssyni og sýnir hversu mikilsvert starf handritafræðinga er. En þessi fáu dæmi lýsa einnig orðvísi Íslendingasagna og miklum örlögum svo og því hversu mikill fjársjóður þær eru fyrir íslenska tungu. Ættu allir - ungir sem gamlir - að lesa eina Íslendingasögu á ári.
Tryggvi Gíslason