„Staðan er ekki góð,“ segir Hermann Karlsson, hjá aðgerðastjórn Almannavarna á Norðurlandi eystra í samtali við mbl.is. Fjórtán ný smit voru greind á svæðinu í gær og tengjast tveimur atburðum, samkvæmi og jarðarför. Ný smit á Norðurlandi eystra eru ekki inni í tölum á covid.is í dag fyrir Norðurland eystra þar sem ekki var hægt að fljúga með sýnin suður í gærkvöldi vegna veðurs og því ekið með þau suður. Alls eru 230 í sóttkví.
Nýju smitin eru flest á Akureyri og Dalvík og tengjast þau flest tveimur viðburðum, annars vega samkvæmi í heimahúsi og hins vegar jarðarför. „Það góða er að 12 af 14 voru þegar í sóttkví,“ segir Hermann í samtali við mbl.is.
Lögreglan á Norðurlandi eystra og aðgerðastjórn almannavarna í umdæmi lögreglustjórans á Norðurlandi eystra hvetja íbúa svæðisins til einbeittrar samstöðu í baráttu við kórónuveiruna.