400 þúsund lítrar af jólabjór

Jólabjórinn er kominn í verslanir en fyrsti söludagurinn var í gær. Hjá Vífilfell á Akureyri voru framleiddir um 400 þúsund lítrar af jólabjór, sem er veruleg aukning frá því í fyrra. „Jólabjórinn hefur fest sig rækilega í sessi og er sá árstíðarbjór sem er langmesta eftirspurnin eftir,“ segir Unnsteinn Jónsson verksmiðjustjóri Vífilfells á Akureyri. „Það er mesta stemmningin í kringum jólabjórinn og hann verður sífellt vinsælli. Undanfarin ár hefur salan farið gríðarlega vel af stað strax í byrjun en fyrir 10-15 árum var það þannig að fyrstu vikurnar seldist lítið en síðan fór allt á fullt þegar líða tók á desember. Núna flykkist fólk í verslanir um leið og bjórinn kemur.“

Vífilfell framleiðir fjórar tegundir af jólabjór; Einstök, Víking Jólabjór, Thule Jólabjór og Jólabock. Unnsteinn segir mestu eftirspurnina vera eftir Víking Jólabjór en sá bjór hefur iðulega raðað sér í efstu sætin yfir vinsælustu jólabjórana hjá landanum. Í fyrra framleiddi Vífilfell Thule Jólabjór í fyrsta sinn, sem fékk góðar viðtökur.

„Hann rokseldist og við munum framleiddum meira af honum í ár. Hann er mjög ólíkur Víking Jólabjórnum og það er einmitt það skemmtilega við þetta, hversu bjórarnir eru ólíkir. Úrvalið er því fjölbreytt,“ segir Unnsteinn.

-þev

Nýjast