Í gær voru 328 kandídatar brautskráðir á Háskólahátíð Háskólans á Akureyri. Athöfnin fór fram í annað sinn í húsakynnum skólans. Frú Vigdís Finnbogadóttir var heiðursgestur á brautskráningu skólans. Háskólaárið 2014-2015 stunduðu um 1800 nemendur nám á þremur fræðasviðum við Háskólann á Akureyri. Skipting kandídata eftir því hvort þeir voru í staðarnámi, fjarnámi eða lotunámi var eftirfarandi: Staðarnemar 139, fjarnemar og 111 og lotunemar 78
Skipting kandídata eftir fræðasviðum var eftirfarandi: Heilbrigðisvísindasvið 81, Hug- og félagsvísindasvið 166 og Viðskipta- og raunvísindasvið 81. Konur eru í miklum meiri hluta þeirra sem brautskráðust eða 259 á móti 69 körlum.
Í brautskráningarræðu sinni fjallaði Eyjólfur Guðmundsson rektor meðal annars um doktorsnámsumsókn Háskólans á Akureyri og ástæður þess hversu nauðsynlegt það er fyrir skólann að fá heimild frá menntamálaráðherra, eins og skilgreint er í lögum, til að bjóða uppá doktorsnám.
Rektor kom jafnframt inná málefni háskóla og taldi hann farsælla að hægar yrði farið í sameiningaraðgerðum háskóla og frekar stefnt að því hlúa að núverandi kerfi, skapa jafnræði í fjárveitingum og aðstöðu. Þannig að skólarnir geti sjálfir rætt sín á milli um samvinnu á eigin forsendum.
Í ávarpinu sínu til kandídata lagði rektor áherslu á að þau tæku virkan þátt í að bæta samfélagið og notuðu sína þekkingu samfélaginu alls til góðs. Hann benti á þá staðreynd að þrátt fyrir erfiðleika síðustu ára þá sé Ísland ríkt land í formi hefðbundinna auðlinda og mannauðs og hafi því allar forsendur til að byggja samfélag þar sem ríkir velferð og réttlæti en til þess að það gerist verði kandídatar að hlúa að lýðræðinu, mannréttindum og með þekkingu sinni stuðla að hagsæld í landinu öllu.
Viðurkenningu fyrir góðan námsárangur (grunnám) hlutu eftirtaldir:
Auðlindafræði Eiríkur Páll Aðalsteinsson
Félagsvísindi Einar Kristinsson
Kennarafræði Vordís Guðmundsdóttir
Hjúkrunarfræði Jóna Maren Magnadóttir
Iðjuþjálfunarfræði Alda Pálsdóttir
Lögfræði Magnús Smári Smárason
Viðskiptafræði Þorsteinn Helgi Valsson
Góðvinir Háskólans á Akureyri, félag brautskráðra nemenda við HA og annarra velunnara háskólans veittu viðurkenningar til þeirra nemenda sem hafa verið ötulir í því að starfa í þágu háskólans svo sem með nefndarsetum og við kynningarstarf. Þrír hlutu heiðursverðlaun Góðvina að þessu sinni, þau Vordís Guðmundsdóttir (hug- og félagsvísindasviði), Snæbjörn Ómar Guðjónsson (heilbrigðisvísindasviði) og Þórhildur Edda Eiríksdóttir (viðskipta- og raunvísindasviði)